Kona verði dómsmálaráðherra

Gylfi Magnússon
Gylfi Magnússon

Líklegt er að nýir ráðherrar viðskiptamála og dómsmála komi ekki úr hópi þingmanna, að sögn fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Fréttastofan segir að þau Gylfi Magnússon prófessor við HÍ og Bryndís Hlöðversdóttir prófessor við Háskólann á Bifröst komi til greina í þau embætti.

Meiri vafi var sagður á því að Bryndís kæmi til greina sem dómsmálaráðherra en Gylfi sem viðskiptaráðherra. Þó var talið víst að leitað væri að konu í embætti dómsmálaráðherra.

Gylfi hefur verið reglulegur álitsgjafi fjölmiðla vegna hinna ýmsu álitaefna í kjölfar hruns bankanna, en hann er með doktorspróf í hagfræði frá Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Einnig vakti Gylfi athygli er hann sagði bankana gjaldþrota, við litla hrifningu stjórnenda Kaupþings, en reyndist síðan sannspár.  

Áður en Gylfi hóf kennslu- og rannsóknarstörf við Háskóla Íslands var hann blaðamaður á Morgunblaðinu í nokkur sumur, sinnti kennslu við Menntaskólann við Sund og kennslu við Yale-háskóla.

Bryndís er lögfræðingur að mennt og var þingmaður Samfylkingarinnar áður en hún hóf störf hjá Bifröst.

Bryndís Hlöðversdóttir
Bryndís Hlöðversdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka