Það voru mistök að gera ekki breytingar á ríkisstjórninni fyrir áramót. Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, á fundi sjálfstæðismanna á Grand hótel.
Hún sagði að ýmislegt hefði orðið til að fresta þessari ákvörðun, en eftir á að hyggja hefði átt að klára þetta mál fyrir áramót.
Á fundinum var forystusveit Sjálfstæðisflokksins spurð hvort hún teldi að ríkisstjórnin hefði gert mistök eftir að bankarnir hrundu. Bæði Þorgerður Katrín og Geir H. Haarde sögðust ekki útiloka að einhver mistök hefðu verið gerð. Bæði sögðust þau þó telja að stærstu ákvarðanirnar hefðu verið réttar.
Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra sagði að endurreisn bankakerfisins hefði tekið allt of langan tíma. Það væri ekki einfalt mál að skýra hvers vegna þetta hefði þróast með þessum hætti.
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagði ekki rétt að menn skýldu sér á bak við bankaleynd þegar fjallað væri um bankana. Margt af þeim upplýsingum sem menn væru að kalla eftir mætti flokka undir sögulegar upplýsingar. Hann gagnrýndi hvernig Fjármálaeftirlitið hefði svarað þegar kalla var eftir upplýsingum.