Tveir af helstu forkólfum Existu, aðaleiganda Kaupþings þar til
bankinn féll, skráðu íbúðarhús sín á maka sína í kringum hrun
fjármálakerfisins í haust. Hið sama gerðu þó nokkrir aðrir bankamenn um
svipað leyti. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
„Nokkrum dögum fyrir bankahrunið eða 25. september afsalaði Erlendur Hjaltason, forstjóri Existu og formaður Viðskiptaráðs, sér sínum hluta í húsinu við Auðarstræti og færði yfir á konu sína.
Fáeinum vikum síðar, hinn 20. október, gerði hinn forstjóri Existu, Sigurður Valtýsson, það sama og afsalaði sér sínum hluta í húsinu í Iðalind og lét skrá á konu sína.
Forstjóri MP verðbréfa hefur einnig skráð hús sitt og konu sinnar á hennar nafn. Það gerði Styrmir Þór Bragason sama dag og Geir Haarde forsætisráðherra bað guð að blessa Ísland í frægu sjónvarpsávarpi. Frá og með 6. október hefur hús þeirra við Bakkavör verið skráð á eiginkonu Styrmis.
Svo virðist sem fleiri sem tengjast fjármálaumsýslu hafi viljað breyta eignarhaldi á íbúðarhúsum sínum í kring um fall bankanna. Um tveimur vikum fyrir hrunið skráði fjármálastjóri Baugs hús sitt á Laufásvegi á náinn ættingja.
Eins og kunnugt er höfðu aðilar tengdir Baugi mikil ítök í Glitni. Hinn 18. september færði fjármálastjórinn, Stefán Hilmar Hilmarsson, húsið af sínu nafni á einkahlutafélagið Vegvísi. Skráður eigandi þess er móðir Stefáns," samkvæmt frétt Fréttablaðsins í dag.