Fréttaskýring: Nýtt lýðveldi verður ekki til á einni nóttu

mbl.is/Ómar

Hugmyndir um breytingar á stjórnskipan á Íslandi og þar með á stjórnarskránni eru nú áberandi. M.a. setti hópurinn Nýtt lýðveldi fyrir nokkru fram áskorun um að boðað yrði til stjórnlagaþings – nýs þjóðfundar sem semdi nýja stjórnarskrá.

Þegar stjórnarskráin tók gildi að danskri fyrirmynd við lýðveldisstofnunina var rætt um að endurskoða hana í heild síðar. Það hefur enn ekki orðið og þykir mörgum kominn tími til, en hversu hraðar verða slíkar breytingar?

Samkvæmt 79. grein stjórnarskrárinnar þarf samþykki tveggja þinga, með þingrofi og kosningum á milli. Stjórnarskránni hefur samt margoft verið breytt, en tímasetningu er þá hagað þannig að frumvarpið sé samþykkt rétt fyrir hefðbundnar kosningar svo ekki þurfi að rjúfa þing sérstaklega. Jón Kristjánsson, sem gegndi formennsku í stjórnarskrárnefnd árin 2005-2007, segir enn tíma til að gera breytingar á afmörkuðum atriðum stjórnarskrárinnar fyrir kosningar í vor.

Flokkapólitíkin hefur áhrif

Starf stjórnarskrárnefndar strandaði að sögn Jóns á ágreiningi þáverandi stjórnarflokka. Hætt væri við því að breytingar á stjórnarskrá lituðust alltaf af stjórnmálaástandi hvers tíma eins og fyrirkomulagið væri nú. Þess vegna lagði stjórnarskrárnefndin á sínum tíma til að 79. grein stjórnarskrárinnar yrði breytt þannig að efna mætti til sérstakrar þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar, án þess þó að rjúfa þyrfti þing. Þannig væri aðeins kosið um breytingar á stjórnarskránni, en ekki um ýmis baráttumál flokkanna um leið. Með þessari lykilbreytingu vildi nefndin tryggja forsendur til þess að heildarendurskoðun á stjórnarskránni yrði staðfest með beinum lýðræðislegum hætti síðar.

Tillagan var ekki flutt á þingi þá en ætla mætti að forsendur væru fyrir því að taka upp þráðinn nú. „[Núverandi] fyrirkomulag hefur leitt til þess að stjórnarskránni er ekki breytt nema í kringum kosningar, því fáir þingmeirihlutar eru svo viljugir til að breyta stjórnarskrá að þeir rjúfi þing áður en kjörtímabil er liðið,“ segir Ragnhildur Helgadóttir, lagaprófessor við HR. Hún segist sjálf sammála því að breyta þurfi með einhverjum hætti breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. „Ef menn vilja kalla til stjórnlagaþings myndi ég halda að þetta væru þær breytingar sem ætti að gera núna, en efna svo til stjórnlagaþings eftir kosningar og gefa því góðan tíma til að fara yfir málin.“

Liprara breytingarákvæði myndi án efa liðka fyrir því að niðurstöður stjórnlagaþings tækju gildi fyrr en að loknu næsta kjörtímabili eftir fjögur ár. Jón telur enn tíma fram að kosningum til að knýja fram þessa breytingu. Hún yrði þá fyrsta skref í átt að nýrri stjórnskipan, en hvernig sem staðið yrði að málum væri þó víst að nýtt lýðveldi sprytti ekki fram fullskapað á einni nóttu.

Hvað er stjórnlagaþing?

Fram að þessu hefur ekki verið til neitt eiginlegt stjórnlagaþing og yrði þetta því í fyrsta skipti sem til þess væri efnt. Jóhanna Sigurðardóttir lagði reyndar fram frumvarp á Alþingi árið 1996 um að stofnað yrði sérstakt stjórnlagaþing skipað þjóðkjörnum fulltrúum. Það var ekki samþykkt.

Framsóknarflokkurinn hyggst nú leggja fram frumvarp sem byggist á þessari hugmynd. Samkvæmt útfærslu hans yrðu 63 fulltrúar kosnir samhliða alþingiskosningum og gæti hver sem er boðið sig fram að undanskildum forseta Íslands, ráðherrum og þingmönnum. Niðurstaðan yrði svo borin undir þjóðaratkvæði.

Hvers vegna ekki Alþingi?

Hugmyndin um stjórnlagaþing virðist byggjast á því að ákvarðanir litist annars af pólitískum hagsmunum sitjandi þingmanna og ráðherra. Reynslan virðist sýna að flokkadeilur geti staðið stjórnarskrárbreytingum fyrir þrifum og yrði stjórnlagaþing því tilraun til hlutlausrar umræðu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert