Samgönguráðherra hefur skipað tvo starfshópa til að hefja athugun annars vegar á hugsanlegri sameiningu samgöngustofnana og hins vegar á sameiningu Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf. Markmið þessara athugana er að auka hagkvæmni við rekstur og uppbyggingu í samgöngukerfi landsmanna, að því er segir í tilkynningu.
Ríkisstjórnin samþykkti á liðnu ári tillögu Kristjáns L. Möller samgönguráðherra að kanna breytta skipan samgöngustofnana. Tillagan byggðist meðal annars á skýrslu Ríkisendurskoðunar um samgönguframkvæmdir og er hugmyndin nú að útfæra hugmynd að nýrri skipan Vegagerðarinnar, Siglingastofnunar Íslands og Umferðarstofu. Er starfshópnum meðal annars falið að meta hvort verkefni skuli færð á milli stofnananna innan núverandi skipunar þeirra eða komið upp nýjum stofnunum og hinar eldri lagðar af. Formaður hópsins er Gísli Gíslason, framkvæmdastjóri Faxaflóahafna.
Kristján L. Möller samgönguráðherra kynnti fyrir nokkru þá ákvörðun sína að könnuð yrði hagkvæmni þess að sameina Flugstoðir ohf. og Keflavíkurflugvöll ohf. svo fremi sem sameinað félag verði öflugra en þau tvö sem nú starfa. Flugstoðir ohf. tóku til starfa í ársbyrjun 2007 þegar rekstur og þjónusta flugvalla og flugleiðsögu voru færð frá Flugmálastjórn Íslands í hið nýja félag. Keflavíkurflugvöllur ohf. var stofnað á síðasta ári og tók formlega til starfa í byrjun þessa árs.
Forsenda sameiningarinnar er sú breyting sem varð í ársbyrjun 2008 að málefni Keflavíkurflugvallar voru flutt frá utanríkisráðuneyti til samgönguráðuneytis. Eru öll flugmál þar með komin undir stjórn samgönguráðuneytisins. Formaður hópsins er Jón Karl Ólafsson, forstjóri Primera Air.