Reiknað með betri afkomu í ár

Mjólkursamsalan var rekin með tapi í fyrra.
Mjólkursamsalan var rekin með tapi í fyrra.

Tap Mjólkursamsölunnar (MS) var 650-700 milljónir króna í fyrra, samkvæmt drögum að rekstrarniðurstöðum sem fréttavefurinn bbl.is greinir frá. Þetta er nokkru meira tap en varð á rekstri MS árið 2007 en þá nam tapið 450 milljónum króna.

Drögin voru kynnt á stjórnarfundi MS og eigandafundi Auðhumlu á Akureyri fyrr í dag. Skýringar á auknu tapi fyrirtækisins í fyrra eru fyrst og fremst raktar til þess efnahagslega óstöðugleika sem skekið hefur landið og birtist í mjög háu vaxtastigi og lágu gengi krónunnar. Rekstrarafkoma fyrirtækisins fyrir afskriftir og fjármagnsliði (svokölluð EBIDTA) á síðasta ári var mun betri en árið 2007. Á síðasta ári var sú upphæð samkvæmt drögum rúmar 330 milljónir króna en árið 2007 var rekstrarafkoma fyrir afskriftir og fjármagnsliði 47,5 milljónir króna.

Stjórnendur fyrirtækisins búast við bættri afkomu á yfirstandandi ári en gripið var til hagræðingar í rekstri í fyrra. Sala á mjólkurafurðum hefur aukist umtalsvert auk þess sem verð hefur hækkað. Samkvæmt drögum að rekstaráætlun fyrir árið 2009 er búist við að rekstrarafkoma MS verði yfir 800 milljónir króna á árinu fyrir afskriftir og fjármagnsliði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert