Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, telur allar forsendur fyrir því að sú stjórnarmyndun sem unnið hefur verið að undanfarna daga geti gengið. Hann sagði Framsóknarmenn leggja áherslu á að leiðirnar séu trúverðugar fyrirfram.„Það verði ekki af þessu neitt fjárhagslegt tjón eða fjárhagsleg áhætta sem muni þá lenda á næstu ríkisstjórn.“
Sigmundur Davíð telur raunhæfast að stefna að því að kynna nýja ríkisstjórn á mánudaginn kemur. Hann segir að væntanlegir stjórnarflokkar, Vinstri grænir og Samfylkingin, séu aftur á móti mjög áfram um að það verði gert strax á morgun. „Við munum reyna að klára þetta fyrir þann tíma,“ sagði Sigmundur Davíð.
Verkáætlun nýrrar ríkisstjórnar var kynnt þingflokki Framsóknarflokksins á fundi kl. 13.30 í dag. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í samtali við mbl.is að þingflokkurinn hafi farið yfir verkáætlunina með hópi hagfræðinga. Þeir höfðu átt aðkomu að starfshópum sem undirbjuggu áætlunina að einhverju leyti og þekktu því málið. Í hópi hagfræðinganna munu m.a. vera þeir Jón Daníelsson og Ragnar Árnason ásamt fleirum sem bættust í hópinn í dag.
„Það var niðurstaða þeirra og síðan þingflokksins líka að það vantaði ýmislegt upp á útfærsluna á því hvernig menn ætluðu að framkvæma þessa hluti sem til stendur að ná,“ sagði Sigmundur Davíð. Hann sagði um að ræða þau markmið sem Framsóknarflokkurinn taldi að þessi ríkisstjórn þyrfti að ná ef veita ætti henni hlutleysi. Markmiðin sneru m.a. að því að tryggja hag fjölskyldna og fyrirtækja í landinu.
„Við vildum að sjálfsögðu sjá að menn hefðu raunhæfar leiðir til þess að ná þessum markmiðum og höfum lagt á það mikla áherslu síðustu daga. Ég hef varla farið í viðtal án þess að nefna að þetta snerist um leiðirnar,“ sagði Sigmundur. Hann sagði að þeim hafi þótt vanta upp á nánari útfærslur á því hvernig ná ætti þessum árangri. Væntanlega hafi sitjandi ríkisstjórn einnig viljað laga þessa hluti en bent hafi verið á að hún hafi ekki verið tilbúin að gera það sem þyrfti til þess. Þar af leiðandi vildu Framsóknarmenn styðja ríkisstjórn sem væri tilbúin að gera það.
„Það varð út að við þáðum boð þeirra, Vinstri grænna og Samfylkingar, um að okkar hópur mótaði tillögur í þessu efni og kæmi þeim á framfæri við þau,“ sagði Sigmundur Davíð. Hann reiknaði með að tillögurnar yrðu tilbúnar á morgun. Spurður hvenær á morgun það yrði sagði Sigmundur Davíð:
„Steingrímur [J. Sigfússon] og Jóhanna [Sigurðardóttir] vonast til að þetta klárist sem allra fyrst. Ég sagði þeim að við myndum reyna að drífa þetta af. En það er ákaflega stuttur tími sem þingflokkurinn hefur haft til að meta þetta. Þau voru ekki komin í málið fyrr en klukkan hálf tvö í dag. Ég geri ráð fyrir að þegar tillögur hagfræðinganna liggja fyrir þá muni þingflokkurinn leggja blessun sína yfir þær. Síðan verði þær kynntar Jóhönnu og Steingrími.“
Ekki hefur verið ákveðið hvenær þingflokkur Framsóknarmanna hittist á morgun. Það mun ráðast af því hvenær drög hagfræðinganna að aðgerðum verða tilbúin.