Egó-stöðvar heyra sögunni til

Allar stöðvar EGO, sjö talsins, verða eftirleiðis reknar undir merkjum N1. Verið er að leggja lokahönd á útlitsbreytingu EGO-stöðvanna en að því loknu heyrir EGO sögunni til. Jafnframt þessu hefur N1 ákveðið að birta eldsneytisverð á heimasíðu sinni. Þar má sjá meðalverð á landinu, bæði fyrir bensín og dísil og lægsta útsöluverð á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Stefna EGO hefur frá upphafi verið að bjóða eldsneytisverð sambærilegt við það sem lægst gerist á hverju markaðssvæði fyrir sig. Sex stöðvar hafa verið reknar á höfuðborgarsvæðinu undir merki EGO, við Salaveg, Smáralind, Holtagarða, Fellsmúla og Staldrið og ein við Tryggvabraut á Akureyri.

Þessar stöðvar eru nú hluti af stöðvaneti N1 sem var fyrir með rúmlega 100 afgreiðslustaði um allt land. Í tilkynningu frá Hermanni Guðmundssyni, forstjóra N1 segir að með þessari breytingu geti tugþúsundir viðskiptavina N1 nýtt sér lægsta eldsneytisverðið sem N1 býður á sjálfvirkum útsölustöðum. Þá geti fjölmargir viðskiptavinir Egó nú nýtt sér alla útsölustaði N1 um land og notað áfram bæði kort og greiðslulykla á þeim útsölustöðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert