Fá ekki að skila lóðinni

Borgarráð hefur synjað ósk bílaumboðsins Brimborgar um að fá að skila atvinnulóð að Lækjarmel 1 á svokölluðum Esjumelum á Kjalarnesi. Brimborg vildi skila lóðinni og fá endurgreidd gatnagerðargjöld að upphæð 113 milljónir með verðbótum. Að óbreyttu stefnir í málaferli vegna synjunar borgarráðs á erindi Brimborgar.

„Við hrun bankanna í byrjun október sáum við að forsendurnar að byggja á lóðinni væru brostnar enda varð nánast 100% samdráttur í greininni,“ segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar.

Egill segir að lögmaður Brimborgar hafi haft samband við embættismann hjá Reykjavíkurborg og spurt hvernig ætti að skila lóðinni og honum verið sagt að útbúa einfalt bréf og skila lóðinni, eins og tíðkast hafi í áratugi. Fulltrúar Brimborgar hafi svo farið í Ráðhúsið 9. október með bréfið og skilað lóðinni.

Egill segir að í lögunum standi að sveitarfélagið hafi 30 daga til að endurgreiða gatnagerðargjöldin en sá frestur hafi liðið án þess að nokkuð hafi gerst.

„Síðan gerist það 20. nóvember, 41 degi eftir að við skilum lóðinni, að borgarráð samþykkir breyttar reglur um að ekki sé hægt að skila lóðum. Það sé hægt að óska eftir því að skila lóðum og aðstæður hvers og eins verði metnar. Okkur skilst að einhverjum, en ekki öllum, hafi tekist að skila lóðum undir íbúðarhús en ekki hafi verið hægt að skila neinni atvinnulóð,“ segir Egill

Hann segir að Brimborg hafi óskað eftir rökstuðningi en aðeins fengið almennt svar. Brimborg hafi haldið áfram bréfaskiptum við borgina vegna málsins. Borgarráð hafi svo tekið endanlega ákvörðun um synjun á fundi sínum á fimmtudaginn, tæpum fjórum mánuðum eftir að Brimborg skilaði lóðinni.

Egill segir að Brimborg ætli með málið lengra, enda telji lögmaður fyrirtækisins að ekki sé hægt að beita fyrir sig reglum sem settar eru eftir á, eins og gert hafi verið í þessu tilfelli.

Fyrirtækið muni fara í mál við borgina ef þurfi til að fá gatnagerðargjöldin endurgreidd, enda telji það að lóðinni hafi verið skilað með lögmætum hætti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka