Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fráfarandi utanríkisráðherra, kvaddi í gær þá Helga Ágústsson og Eið Guðnason, fyrrum sendiherra, sem láta nú báðir af störfum vegna aldurs.
Segja má þó að kveðjuhófið hafi verið fleirum til handa því Ingibjörg sjálf lét þau orð falla að þetta væri líklega hennar síðasta embættisverk í þessari lotu.
Ingibjörg er ekki fyrsti ráðherrann sem þeir Helgi og Eiður starfa með, því á 40 ára ferli sínum kynntist Helgi þrettán utanríkisráðherrum en Eiður sex á sinni 16 ára tíð. Hann státar m.a. af því að hafa verið sendiherra í fjölmennasta ríki heims, Kína, og ræðismaður í einu því fámennasta, Færeyjum þar sem hann vann síðustu starfsárin. Helgi hefur að síðustu starfað sem prótókollsstjóri í utanríkisráðuneytinu.