Lofum engum kraftaverkum

Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon fara yfir stöðuna á …
Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon fara yfir stöðuna á þingflokksfundi í morgun. Ómar Óskarsson

„Við getum ekki lofað neinum kraftaverkum og snöggum breytingum en ég get svo sannarlega lofað því að við munum gera allt sem við getum til að bæta andrúmsloftið í samfélaginu og leggja hlutina fyrir með skipulegum hætti og veita upplýsingar,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG aðspurður um hvernig og hve fljótt almenningur muni finna áhrif aðgerða nýrrar ríkisstjórnar í þágu heimila og fyrirtækja.

Steingrímur segir að listaðar verði upp þær aðgerðir sem ráðist verður í til stuðnings heimilunum, til að hjálpa fólki í gegnum næstu mánuði.

„Vonandi léttir það stemninguna og kveikir vonir í brjóstum manna,“ segir Steingrímur

Hann segir ágætt að nú hafi fengist botn í afstöðu Framsóknarflokksins en um tíma virtist sem snurða væri hlaupin á þráðinn í sambandi við stuðning framsóknar við ríkisstjórnina. Eftir mikil fundahöld framsóknarmanna í dag féllust þeir á að verja ríkisstjórnina vantrausti.

„Ekki það að við höfum verið neitt sérstaklega óróleg en það er gott að þessu er lokið. Nú er framundan að klára myndun ríkisstjórnarinnar og forsetinn getur væntanlega farið að taka til á Bessastöðum og hafa allt til reiðu. Mér finnst mjög líklegt að ný ríkisstjórn verði tekin við völdum fyrir kvöldmat annað kvöld,“ segir Steingrímur J. Sigfússon.

Samkvæmt heimildum verða ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar 10. Átta þingmenn setjast í ráðherrastóla og tveir verða utan þings. Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands hefur samþykkt að taka að sér embætti viðskiptaráðherra en óljóst er hvort Björg Thorarensen, forseti lagadeildar HÍ, tekur sæti dómsmálaráðherra. 

Vinstrihreyfingin-grænt framboð fær 4 ráðherrastóla og Samfylkingin 4.

Listi yfir ráðherra í nýrri ríkisstjórn hefur ekki verið birtur en frá þeim verður gengið á fundum þingflokka í fyrramálið.

Fyrir liggur að Jóhanna Sigurðardóttir tekur við forsætisráðuneytinu og að öllum líkindum félags- og tryggingamálaráðuneyti. Þá sest Steingrímur J. Sigfússon væntanlega í fjármálaráðuneytið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka