Eftir Magnús Halldórsson -
Ráðgjafar Framsóknarflokksins í efnahagsmálum, þar á meðal hagfræðingarnir Jón Daníelsson og Ragnar Árnason, töldu efnahagsaðgerðir í drögum að stjórnarsáttmála, sem kynnt voru þingflokki Framsóknarflokksins um hálftvö í gær, vera óraunhæfar. Þingflokkur Framsóknarflokksins var sama sinnis.
Fyrirhugaðri kynningu á nýrri ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, sem fara átti fram um sexleytið í gær, var frestað. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins beitti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sér fyrir því að nákvæm tímasett áætlun yrði meginefni stjórnarsáttmálans.
Forystumenn í Samfylkingunni voru, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, ekki sáttir við að framsóknarmenn skyldu líta á það sem sitt hlutverk að hafa afgerandi áhrif á stjórnarsáttmála stjórnarinnar sem þeir vildu verja falli. Það væri ekki í takt við „hugmyndina um hlutleysi“ þess flokks sem tæki það hlutverk að sér, eins og viðmælandi komst að orði. Í drögunum að stjórnarsáttmálanum sem kynntur var þingflokki Framsóknarflokksins var ekki rætt um hvenær kosningar ættu að fara fram. Það vakti undrun þingmanna flokksins, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Viðræður um kjördag hafa staðið yfir frá því flokkarnir hófu að ræða saman. Líklegast er nú talið að kosið verði 25. apríl.
Í hnotskurn
» Rétt fyrir miðnætti í gær höfðu boð þingflokka Vinstri grænna og Samfylkingarinnar um fund klukkan 10 í dag ekki verið dregin til baka. Hins vegar hefur flokksstjórnarfundi hjá Samfylkingunni, sem hefjast átti kl. 11, verið frestað.