Samfylking beitti klækjabrögðum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði við blaðamenn að loknum fundi í Alþingishúsinu að Framsóknarmönnum hefði ekki hugnast það í gær þegar kynnt var dagskrá stjórnarskipta áður en búið var að kynna Framsóknarflokknum þær aðgerðir sem þó væru forsenda þess að hann veitti þessari minnihlutastjórn vörn. Jafnframt hefði því verið haldið fram að Framsóknarflokkurinn væri að tefja stjórnarmyndun, á sama tíma og þingflokkurinn var í raun að sjá þessar tillögur í fyrsta skipti.

„Við höfum hinsvegar verið sannfærð um það að Jóhanna Sigurðardóttir hafi ekki haft neitt með það að gera heldur hafi verið hópur fólks í Samfylkingunni sem fór aðeins fram úr sér,“ sagði Sigmundur nú fyrir stundu. „Þetta voru einhverjir sem vildu beita þessari aðferð til að þrýsta á að þessi stjórnarskipti yrðu sem hraðast og óheppilegt að slíkum aðferðum sé beitt þegar verið er að ræða grundvallaraðgerðir í efnahagsmálum. En Jóhönnu er ekki um að kenna og jafnframt er ástæða til að hrósa vinstri grænum því þótt þeir séu oft með furðulegar hugmyndir hafa þeir verið alveg sjálfum sér samkvæmir í þessu ferli.“

Þrátt fyrir þetta sagði Sigmundur að viðræður gengju nú mjög vel og útlit væri fyrir að niðurstaða gæti legið fyrir fyrr en gert hafi verið ráð fyrir, og jafnvel núna á eftir þegar hann hefur kynnt Jóhönnu og Steingrími þær athugasemdir sem Framsóknarflokkurinn geri við nýjar tillögur sem komu fram í morgun.

Kalla eftir trúverðugum aðgerðum í efnahagsmálum

Aðspurður játti Sigmundur því að allt stefndi í að Framsókn gæfi hinni nýju stjórn grænt ljós. „Það stefnir allt í það já, og það stefnir allt í að það verði á þeim forsendum sem við lögðum upp með.“ Hann segir fátt standa út af borðinu, en fyrst og fremst kalli Framsóknarflokkurinn eftir útfærðum hugmyndum frá Samfylkingu um lausnir í efnahagsmálum. Farið hafi verið fram og til baka með hugmyndir að aðgerðum, en nauðsynlegt sé að þær séu trúverðugar.

Hann bætti því jafnframt við að nú lægi mikið á og viðræður gætu því ekki verið langar. „Það er ekki hægt að hafa þetta ástand viðvarandi mikið lengur svoleiðis að ég held að við stefnum á lendingu.“ Aðspurður hvort töfina mætti ekki rekja til reynsluleysis hans annars vegar, og hinsvegar reynsluleysis almennt við að mynda minnihlutastjórn á Íslandi sagði Sigmundur að vissulega væri þetta ný staða en þangað til í gær hefði umræðan alfarið verið á höndum stjórnarflokkanna tveggja en ekki hefði staðið á Framsókn.

„Þannig að ef einhverju er um að kenna þá er það þessu framhlaupi þeirra sem vildu beita ákveðnum klækjum við að koma þessu á sem fyrst.“

Steingrímur J. Sigfússon átti stuttan fund með Sigmundi í þinghúsinu að þessu loknu, en saman héldu þeir tveir gangandi nú fyrir stundu á fund Jóhönnu Sigurðardóttur að skrifstofu hennar í Félags- og Tryggingamálaráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert