Skoskir sjómenn vilja að Ísland gangi í ESB

Skoskir sjómenn segjast myndu fagna því ef Íslendingar ganga í Evrópusambandið og vona að sérfræðiþekking Íslendinga á sjávarútvegi verði til þess, að bæta sameiginlega fiskveiðistefnu ESB.

Miklar vangaveltur eru um það í Bretlandi, að Íslendingar muni á næstunni sækja um aðild að ESB. Talsmenn hagsmunasamtaka í skoskum sjávarútvegi segja, að það myndi hafa mikil áhrif á endurskoðun fiskveiðistefnu sambandsins og einnig hugsanlega opna fyrir aðgang breskra sjómanna að íslenskum fiskimiðum. 

Angus MacNeil, sem situr á skoska þinginu, segir við pressandjournal í Aberdeen, að Ísland, sem sjálfstæð þjóð, geti samið um aðild að ESB. „Skoskir fiskimenn geta aðeins öfundað þá íslensku, að vera meðhöndlaðir sem jafningjar á alþjóðavettvangi." 

Haft er eftir Bertie Armstrong, framkvæmdastjóra skoska sjómannasambandsins, að skoskir fiskimenn hafi verið reknir af Íslandsmiðum eftir tvö þorskastríð á áttunda áratug síðustu aldar. „Við lítum til þess, að Íslendingar eru nú að fara bónarveg til Evrópusambandsins og vonum að það verði til að við fáum aðgang að þeirra sjávarútvegi."

Aðrir talsmenn skoskra sjávarútvegssamtaka og þingmenn segja, að sérfræðiþekking Íslendinga á sjávarútvegi muni án efa hafa góð áhrif á stefnumótun innan ESB.  Alistair Carmichael, sem er þingmaður á enska þinginu fyrir Orkneyjar og Hjaltland, segir að aðild Íslands að ESB muni hrista upp í stjórnkerfi sambandsins  vegna þess að íslenska ríkisstjórnin muni ekki þola núverandi kerfi miðstýringar og gagnsleysis en endurskoða á sjávarútvegsstefnu ESB á næstu árum.

Þá segir  Frank Doran, þingmaður Verkamannaflokksins fyrir Aberdeen, að það verði áhugavert að sjá hvernig Ísland tekur á sjávarútvegsmálum í aðildarviðræðum vegna þess að sjávarútvegur sé mikilvægur þáttur í þjóðartekjunum.

Frétt pressandjournal.co.uk

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka