Stjórnun mynduð á morgun

mbl.is/Ómar

Verðandi ríkisstjórn verður líklega mynduð á morgun, að því er Jóhanna Sigurðardóttir, verðandi forsætisráðherra, sagði á Alþingi fyrir stundu.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, telur ekki að Samfylkingin og Vinstri grænir hafi stigið feilspor í samningaviðræðunum við Framsóknarflokkinn.

Eðlilegt væri að nokkurn tíma tæki að „fínpússa“ stjórnarmyndunina, en að jafnframt hefði verið rætt um aðkomu Framsóknarflokksins að málum á starfstíma ríkisstjórnarinnar.

Um þrír áratugir eru frá því síðast var mynduð minnihlutastjórn á Íslandi.

„Við áttum ágætan fund með formanni Framsóknarflokksins fyrir 10 [í morgun] og þau eru nú að fara til fundar í sínum þingflokki þannig að málunum miðar mjög vel og ég held að þetta fari að skýrast bara á næstu klukkutímum,“ sagði Steingrímur J. um hádegisbilið í dag.

„Það kom aðeins hik í þessar viðræður í gær. Framsóknarmenn þurftu lengri tíma til þess að skoða málin en við Steingrímur áttum góðan fund með formanni Framsóknarflokksins í morgun þar sem við áttum hreinskiptar umræður og línur skýrðust. Þannig að ég á ekki von á því nema eitthvað óvænt komi upp - ég veit að framsóknarþingmenn eru að funda nú í hádeginu - annað en að við getum lokið þessu máli í dag þannig að það verði til ný ríkisstjórn á morgun.“

Ýmis „handavinna“ eftir

Aðspurð um möguleika á því að stjórnarskipti fari fram á Bessastöðum í dag sagði Jóhanna „ýmsa handavinnu“ eftir sem þyrfti að ganga frá.

„Við þurfum að hafa okkar flokksstjórnarfundi þannig að ég tel það eðlilegra - en það er auðvitað forsetinn sem ákveður það endanlega og það á eftir að ræða við hann um þessi mál og hver niðurstaðan er eftir viðræður flokkanna - þá tel ég nú eðlilegra að miðað við það sem eftir er þó að kalla saman flokksstjórnarfund og fara aðeins yfir örfá atriði, ekki deiluefni, heldur svona fínpússa málin, þá tel ég það eðlilegra að miða við þetta á morgun [...] Það er forsetinn sem að ræður núna framtíð mála, hvernig hann heldur á málum.“

Innt eftir því hvort Ólafur Ragnar Grímsson hefði boðað hana á fund sagði Jóhanna forsetann ekki hafa gert það.

„Hann hefur ekki boðað mig enn á sinn fund en hann hefur heldur ekki fengið niðurstöðu af þessum fundum okkar eða þá fundi framsóknarmanna og hann þarf auðvitað að hafa vissu fyrir því að þetta sé ríkisstjórn sem varin er falli sem að ég hef engar efasemdir um. Ég vona bara að framsóknarmenn fari yfir þetta með jákvæðum hætti eins og við gerðum með formanni Framsóknarflokksins áðan og ég er bara bjartsýn á niðurstöðuna.“

Sagði Jóhanna að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hlyti að gera forseta grein fyrir niðurstöðunni þegar hún lægi fyrir.

„Síðan hlýtur forseti Íslands að meta þá framhaldið á þessu, til dæmis hvort að mér yrði þá falið að ganga frá málinu til enda. “

Formaðurinn kynnir ráðherralistann

Aðspurð um hvenær ráðherralistinn yrði kynntur sagði Jóhanna Samfylkinguna myndu halda þingflokksfund rétt fyrir flokksstjórnarfund á morgun „þar sem að formaður flokksins leggur þá fram ráðherralista“.

„Síðan yrði í kjölfar þess haldinn flokksstjórnarfundur. Ég veit ekki nákvæmlega tímasetninguna á því.“

Inntur eftir ahuga framsóknarmanna á ráðherraembættum sagði Steingrímur „það aldrei hafa komið til tals“.

„Það lá fyrir frá byrjun að Framsóknarflokkurinn var að bjóða að veita stjórninni fullvissu og verja hana falli en hafði ekki áhuga á því að setja menn inn í ríkisstjórn. Formaður flokksins hefur útskýrt af hverju.

Af okkar hálfu er eingöngu eftir eins og ég segi að afgreiða ráðherralistann og við erum tilbúin til að gera það með stuttum fyrirvara og ég held að við ættum ekki að festa okkur í neinar tímasetningar úr þessu.

Sannfærður um að helgin dugi 

Þetta er að koma og ég er algjörlega sannfærður um að okkur dugar helgin til að mynda nýja ríkisstjórn.

Það er auðvitað ekki sáluhjálparatriði hvort það verði í dag eða á morgun.

Aðalatriðið er að þetta takist og að ný ríkisstjórn geti tekið til hendinni strax á fyrsta virkum degi héðan í frá,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon.

Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon fara yfir stöðuna á …
Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon fara yfir stöðuna á þingflokksfundi í morgun. Ómar Óskarsson
Jóhanna Sigurðardóttir, verðandi forsætisráðherra, á fundi með samfylkingarfólki í Alþingi …
Jóhanna Sigurðardóttir, verðandi forsætisráðherra, á fundi með samfylkingarfólki í Alþingi í dag. Ómar Óskarsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert