Fréttaskýring: Eftirspurnin hrynur í norska hagkerfinu

Reuters

Þrátt fyrir olíuauð er útlitið í norskum efnahagsmálum ekki bjart og telur Tor Steig, yfirhagfræðingur samtaka norskra atvinnurekenda (NHO), sem gæta hagsmuna yfir 19.500 fyrirtækja, líkur á að kreppan nú verði sú dýpsta frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Það sem einkum aðgreini þessa kreppu frá þeim fyrri sé sú breyting að efnahagur landsins sé nú bundinn alþjóðahagkerfinu mun traustari böndum og útflutningsiðnaðurinn því viðkvæmari fyrir samdrætti í heimseftirspurninni en áður.

Inntur eftir afstöðu sinni til 20 milljarða norskra króna innspýtingar stjórnvalda í hagkerfið, sem kynnt var á mánudag, segist Steig hafa viljað sjá víðtækari skattalækkanir.

Sú ákvörðun að verja rúmum þremur milljörðum norskra króna í skattaafslátt til handa fyrirtækjum sem skiluðu hagnaði árin 2007 og 2008, vegna taps á rekstrarárinu 2009, sé umdeilanleg. Heppilegra hefði verið að bjóða einnig fyrirtækjum sem voru þá röngum megin við núllið slík fríðindi, enda forgangsatriði að róa öllum árum að því að kreppan dýpki ekki enn frekar. Þetta markmið réttlæti tímabundna aukningu í hallarekstri á fjárlögum, nú þegar óvissan sé mikil og fyrir liggi að auka þurfi aðgang að lánsfé.

Fyrirtækin bíða átekta

Vibeke Hammer Madsen, forstjóri samtaka norskra verslunar- og þjónustuaðila (HSH), segir að á sama tíma og áætlunin feli í sér aukin ríkisútgjöld sé þar ekki nægjanlega komið til móts við þarfir norskra fyrirtækja. Áætlunin styrki og verji opinber stöðugildi en taki ekki með í reikninginn brýna þörf þjónustugeirans, þangað sem rekja megi 60 prósent þjóðarframleiðslunnar og alls um 1.100 þúsund störf í Noregi.

„Við óskuðum eftir skattalækkunum og aðgerðum til að örva eftirspurnina, sem mælist nú sáralítil. Norsku heimilin halda fast um budduna og við myndum vilja sjá neysluna aukast til jafns við það sem hún var árin 2005 og 2006. Ég undanskil 2007, því það var einstaklega gott ár í þessu tilliti,“ segir Madsen, og bætir því við að um 350.000 manns starfi nú í verslunum í Noregi.

Hún tekur undir með Tor Steig að aukin ríkisumsvif og tilheyrandi fjölgun opinberra starfa vegi upp á móti samdrætti í einkaneyslu nú.

Á atkvæðaveiðum

Þá er Madsen sammála honum um það að áætluninni sé ætlað að höfða til kjósendahópa stjórnarflokkanna í stétt verkalýðsins, svo sem sjá megi á áherslunni á framkvæmdir, en um átta mánuðir eru til nú kosninga.

Hún telur afar brýnt að auka aðgang að lánsfé og örva neysluna, ella muni enn fjölga á atvinnuleysisskránni. Einnig þurfi fjármálakerfið og bankarnir að koma betur til móts við þarfir viðskiptalífsins.

Spurð hvort hún telji líklegt að aðgangur að lánsfé verði aukinn kveðst hún „hóflega bjartsýn“ á að svo verði.

Arne Hyttnes, stjórnandi hjá samtökum um 120 sparisjóða í Noregi, er bjartsýnni, en hann telur engu að síður að mjög erfitt sé að leggja fram aðgerðir sem geti vegið upp á móti samdrætti í eftirspurninni erlendis frá.

Hinn 9. febrúar nk. muni stjórnvöld leggja fram áætlun um aðstoð við fjármálageirann, sem sitji nú á rökstólum með stjórnarliðum.

Stjórnin sé í þeirri stöðu að geta ekki lagt fram bitlitla áætlun fjármálalífinu til handa og með það í huga kveðst Hyttnes vongóður um að aðgangur að lánsfé verði aukinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert