Flestir vildu kosningum flýtt

Meirihluti þjóðarinnar var á þeirri skoðun að flýta ætti kosningum
Meirihluti þjóðarinnar var á þeirri skoðun að flýta ætti kosningum mbl.is/Eyþór

Gallup kannaði viðhorf Íslendinga til þess hvort flýta ætti alþingiskosningum fram á næstu mánuði. Mikill meirihluti, eða tæp 66%,  reyndist hlynntur því en rúmlega 23% andvíg. Könnunin var gerð áður en til stjórnarslita kom.

Marktækur munur reyndist vera á afstöðu fólks eftir aldri og menntun, því háskólamenntaðir reyndust frekar vera hlynntir því að boðað verði til kosninga en minna menntaðir. Mikill munur var einnig á milli stjórnmálaskoðanna, því stuðningur við kosningar var langmestur meðal kjósenda Vinstri grænna, 91%, og minnstur meðal kjósenda Sjálfstæðisflokks, 18%. Um 75% kjósenda Samfylkingar og 76% kjósenda Framsóknarflokks voru hlynnt flýttum kosningum.

Þá kannaði Gallup viðhorf fólks til mótmælanna um miðjan janúar. Mikill meirihluti aðspurðra sagðist hlynntur þeim, eða 69% en fimmtungur var andvígur þeim. 11% voru hvort með né á móti. Þegar fólk var spurt hvort það teldi mótmælendur tala fyrir sína hönd í mótmælum gegn þjóðfélagsástandinu sögðu 39% að þeir gerðu það að öllu eða miklu leyti. Tæplega þriðjungur svaraði að mótmælendur töluðu að nokkru leyti fyrir sína hönd og þriðjungur að þeir ötluðu að litlu eða engu leyti fyrir sína hönd.

Þá taldi rúmlega helmingur aðspurðra að viðbrögð lögreglunnar hefðu verið hæfileg, á mótmælunum við Alþingishúsið 20. janúar. Ríflega 68% voru á þeirri skoðun að mótmælendur hefðu gengið of langt umræddan dag.

Að síðustu kannaði Gallup hvort viðhorf til einkavæðingar hefðu breyst í kjölfar bankahrunsins. Tæplega 23% sögðus nú vera almennt hlynnt einkavæðingu ríkisstofnana eða fyrirtækja í eigu ríkisins, sem er mikil lækkun frá fyrri mælingum 2007 og 2005. Stuðningur er mestur meðal kjósenda Sjálfstæðisflokks eins og búast mátti við og minnstur meðal kjósenda Vinstri grænna. Þá eru karlar hlynntari einkavæðingu en konur, með 29% stuðning á móti 16%,  og tekjuhæstu hóparnir hlynntari einkavæðingu en aðrir hópar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert