Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar og fráfarandi utanríkisráðherra, mun eiga fund með Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands á Bessastöðum í dag kl. 12:00 á hádegi. Þar mun hún gera forsetanum grein fyrir niðurstöðum viðræðna sem fram hafa farið um stjórnarmyndun síðustu daga.
Jafnframt hefur forsetinn boðað Jóhönnu Sigurðardóttur, starfandi félagsmálaráðherra en verðandi forsætisráðherra, til Bessastaða í dag kl. 13:00 samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu forseta Íslands.
Þetta er fimmti dagur stjórnmyndunarviðræðna, en að lokinni langri fundarsetu í gær með formönnum stjórnarflokkanna tveggja og eigin þingflokki tilkynnti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, að flokkurinn hyggðist verja nýja minnihlutastjórn falli. Þá náðist jafnframt samkomulag um það seint í gær að kosið verði til Alþingis laugardaginn 25. apríl næstkomandi.
Búast má við því að ný ríkisstjórn verði formlega kynnt síðdegis í dag að loknu fundahaldi á Bessastöðum og innan stjórnarflokkanna.