Stefnt er að því að ný ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur verði kynnt á fimmta tímanum í dag. Ríkisráðsfundir verða að líkindum haldnir í framhaldi af því.
Miðstjórnarfundur Framsóknarflokks hefur verið boðaður í dag klukkan hálftvö þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, kynnir framgang og niðurstöður viðræðna um að flokkurinn verji minnihlutastjórn Samfylkingar og VG falli fram að kosningum.
Þingflokkar VG og Samfylkingar hafa verið boðaðir til funda eftir hádegið. Þingflokkur VG þingar klukkan tvö en Samfylking hálftíma síðar.
Að loknum þingflokksfundi halda þingmenn Samfylkingar til fundar við flokksstjórn í Nasa en það er sú stofnun flokksins sem endanlega blessar stjórnarsamstarfið. Í flokksstjórn eiga sæti, auk þingmanna, fulltrúar framkvæmdastjórnar, þrjátíu og einn fulltrúi kjörnir af kjördæmisráðum Samfylkingarinnar, þrjátíu fulltrúar sem kjörnir eru á landsfundi, sveitarstjórnarfulltrúar Samfylkingarinnar, formenn kjördæmis- og fulltrúaráða, formenn aðildarfélaga Samfylkingarinnar og stjórn verkalýðsmálaráðs. Í flokksstjórn eiga sæti hátt á annað hundrað manns.
Ný ríkisstjórn, verkefnaskrá hennar og ráðherraskipan verður svo kynnt á fimmta tímanum í dag.
Fráfarandi ríkisstjórn Geirs H. Haarde kemur til síns síðasta ríkisráðsfundar á Bessastöðum um eða upp úr klukkan fimm. Að honum loknum verður haldinn ríkisráðsfundur viðtakandi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem formleg valdaskipti fara fram.