Nokkur afskipti voru höfð af ökumönnum á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Fimm voru teknir grunaðir um ölvun og einn í morgunsárið grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Honum var sleppt eftir viðræður við varðstjóra og blóðsýnatöku.
Klukkan kortér fyrir eitt missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Sæbraut við Laugarnesveg, með þeim afleiðingum að bíllinn valt á hliðina. Ökumann sakaði ekki og klvaðst hafa verið í bílbelti sem hefði bjargað honum frá meiðslum. Að sögn lögreglu er atvikið rakið til hálku á veginum.
Um hálffjögurleytið skildi eigandi bifreiðar bílinn eftir í gangi við Flókagötu á meðan hann hugðist bregða sér í stutta stund inn í hús. Vildi ekki betur til en svo að í sama mund átti bílþjófur leið hjá, sem settist undir stýri og ók á brott. Hann komst þó ekki nema út að næstu gatnamótum þar sem hann ók aftan á aðra bifreið. Ökumaður þess bíls vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið að sögn lögreglu þegar bílnum var ekið á brott frá árekstrinum og eigandinn á hlaupum á eftir honum. Bíllinn fannst skömmu síðar mannlaus og yfirgefinn skammt frá. Bílþjófurinn fannst ekki þrátt fyrir leit lögreglu.
Lögregla vill brýna fyrir ökumönnum að skilja bifreiðir sínar ekki eftir í gangi mannlausar, þar sem aldrei er að vita hver eigi leið framhjá.