Rændu fatlaða konu við hraðbanka

Sjö manns vörðu nóttinni í fangageymslum lögreglu í Reykjavík
Sjö manns vörðu nóttinni í fangageymslum lögreglu í Reykjavík Brynjar Gauti

Alls gistu sjö fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir skemmanir næturinnar. Skömmu fyrir miðnætti var rán framið í Hafnarfirði, þegar par hrinti fatlaðri konu þar sem hún reyndi að taka fé úr hraðbanka og stal af henni debetkorti og hljóp á brott. Atvikið náðist á eftirlitsmyndavélar bankans og um þremur tímum síðar var par handtekið, grunað um verknaðinn en afskipti voru höfð að þeim þar sem þau höfðu miss stjórn á bifreið sinni á Laugarvegi og ekið utan í vegrið. Bæði voru í annarlegu ástandi og gista nú fangageymslur á meðan þau bíða yfirheyrslu.

Einn gestur veitingahúss miðborgarinnar var ósáttur við afskipti dyravarðar og réðst að honum. Að sögn lögreglu þótti honum ekki nóg að hafa dyravörðinn undir því hann tók þá upp á því að sparka í höfuð hans þar sem hann lá í götunni. Aðrir dyraverðir yfirbuguðu manninn og kölluðu til lögreglu. Meiðsl dyravarðarins voru sem betur fer minniháttar.

Aðrir gestir fangageymslu fengu að gista þar vegna ölvunar og óspekta.

Þá hafði lögregla afskipti af einum manni við eldsvoðann sem kom upp í húsnæði Vídeóheima í Grafarvogi. Talsverður mannfjöldi safnaðist saman og fylgdist með slökkvistarfinu, en einn maður tók sig til og tók að kasta af sér þvagi utan í eina slökkvibifreiðina. Hann má búast við sekt fyrir athæfið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert