Reiðubúnir til samstarfs

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Frikki

„Við höfum ekki náð að setjast yfir það nákvæmlega, þetta er auðvitað langt plagg, og ég var bara að rétt að sjá þetta, en almennt vil ég segja að það er fagnaðarefni að það hafi tekist að koma saman ríkisstjórn," segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, um verkefnaáætlun nýrrar ríkisstjórnar.

„Þær yfirskriftir sem að stjórnin er að nefna eru allt atriði sem að við og reyndar Samtök atvinnulífsins höfum verið að leggja áherslu á.

Miðað við þann skamma tíma sem er til stefnu þá er þetta metnaðarfullt, en eigum við ekki bara að vera jákvæð yfir því.

Það er alveg ljóst að Alþýðusambandið mun verða reiðubúið til samstarfs um að hrinda þessum verkefnum í framkvæmd."

Hafa lagt áherslu á mörg atriðanna 

„Við höfum lagt mjög mikla áherslu á sumt sem þarna er nefnt. Ég nefni sérstaklega greiðsluaðlögunina og gjaldþrotalögin.

Jafnframt er líka ljóst að megin viðfangsefni næstu vikna og mánaða er að sporna gegn þessari hrikalegu aukningu atvinnuleysis sem hefur átt sér stað og við óttumst að það muni halda áfram.

Inn í það fléttast auðvitað bæði efnahagsaðgerðir, vaxtamál og fleiri liðir.

Við lýsum okkur reiðubúna til samstarfs um að koma sem mestu í framkvæmd, þrátt fyrir þær aðstæður að nú fari stjórnmálaflokkar að undirbúa kosningar."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert