Jóhanna þakkaði traustið

Jóhanna Sigurðardóttir á Bessastöðum.
Jóhanna Sigurðardóttir á Bessastöðum. mbl.is/Ómar

„Verkefnið framundan er fyrst og fremst að reisa við atvinnuvegina og slá skjaldborg um heimilin í landinu, þétta það öryggisnet sem heimilin búa við og við nauðsynlega þurfum á að halda á þessum tímum,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir verðandi forsætisráðherra að loknum fundi hennar með forseta Íslands í dag.

Fundi Jóhönnu Sigurðardótturr verðandi forsætisráðherra með Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands á Bessastöðum lauk klukkan 13.50 í dag. Þau hittu fréttamenn að fundinum loknum. Jóhanna þakkaði forseta Íslands það traust að hafa falið sér umboð til myndunar nýrrar ríkisstjórnar. Hún sagði að stjórnarmyndun Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs með stuðningi Framsóknarflokksins sé nú í burðarliðnum.

„Verkáætlun milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna er tilbúin. Mér er ekkert að vanbúnaði að mynda þessa ríkisstjórn,“ sagði Jóhanna. Hún mun kynna ráðuneyti sitt fyrir forseta Íslands síðar í dag.

„Þessi verkáætlun sem nú liggur fyrir, ég tel að hún sé þannig uppbyggð og framsett að hún geti orðið til þess að draga úr þeirri sundrungu og upplausn sem við höfum upplifað í samfélaginu á undanförnum vikum og mánuðum. Og þessi verkáætlun sé þannig að hún sé leið til sátta framundan við við þjóðina sem er mjög mikilvægt í þeim verkum sem framundan eru.“

Þá þakkaði Jóhanna formönnum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna það traust sem þeir sýndu henni með því að hún verði forsætisráðherra í þessari ríkisstjórn. 

„Ég vona að þessu ríkisstjórn sem nú er í burðarliðnum verði farsæl. Þannig að hún geti leitt þjóðina út úr þeim ógöngum sem við erum í.Þetta eru viðsjárverðir tímar og erfiðustu tímar sem þjóðin hefur upplifað í marga áratugi. Verkefnið og viðfangsefnið er að endurreisa íslenskt efnahagslíf eins og við getum á þeim stutta tíma sem við höfum og að innleiða hér ný gildi í samfélaginu sem ég tel nauðsynlegt.“

 
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Jóhanna Sigurðardóttir verðandi forsætisráðherra.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Jóhanna Sigurðardóttir verðandi forsætisráðherra. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka