200 störf slegin út af borðinu

Hvalveiðiskip gangsett í Reykjavíkurhöfn
Hvalveiðiskip gangsett í Reykjavíkurhöfn mbl.is/ÞÖK

„Að menn skuli voga sér þetta í ástandi eins og hér ríkir, þar sem hátt í 14 þúsund manns eru á atvinnuleysiskrá er með ólíkindum. Hér slá menn út af borðinu að minnsta kosti 200 störf og ég spyr hvað þeir hafi hugsað sér í staðinn, “ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness um endurskoðun hvalveiða.

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun tillögu Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegsráðherra, um að mögulegum hvalveiðiréttarhöfum verði send formleg viðvörun um að ákvörðun fyrri ríkisstjórnar um hvalveiðikvóta hafi verið tekin til endurskoðunar. Steingrímur sagði á blaðamannafundi í dag, að með þessu væri tryggt að ekki mynduðust væntingar til hluta, sem kynnu að taka breytingum. Sjávarútvegsráðherra sagði, að hann hefði einnig lagt til, að utanríkisráðuneyti, ráðuneyti ferðamála og umhverfisráðuneyti myndu veita sjávarútvegsráðuneytinu aðstoð og upplýsingagjöf við endurskoðun á ákvörðuninni.

Verkalýðsfélag Akraness og Akraneskaupstaður hafa boðað til fundar á fimmtudagskvöld þar sem ákvörðun ríkisstjórnarinnar verður til umræðu. Gunnar Bergmann Jónsson og Kristján Loftsson, hvalveiðimenn, hafa verið boðaðir til fundarins. Þá hefur öllum þingmönnum Norðvesturkjördæmis verið boðið. Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis og Einar Kristinn Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra sem tók þessa ákvörðun á síðustu dögum í embætti, hafa staðfest komu sína. Óvíst er með aðra þingmenn. Þá hefur nýjum sjávarútvegsráðherra og nýjum utanríkisráðherra verið boðið til fundarins.

„Við munum að sjálfsögðu spyrja hvern og einn um þeirra afstöðu til hvalveiðanna. Við sættum okkur ekki við að svona sé staðið að hlutum þegar hvert einasta starf skiptir máli,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Fundurinn um hvalveiðar verður í Tónbergi á Akranesi næstkomandi fimmtudag og hefst klukkan 20.

Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA.
Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA. mbl.is/SteinarH
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert