Stjórn Sambands garðyrkjubænda segir ákvörðun landbúnaðarins að skerða niðurgreiðslur á dreifingarkostnaði rafmagns vera aðför að íslenskri garðyrkju.
Stjórn Sambands garðyrkjubænda (SG) samþykkti á fundi sínum, 30. janúar 2009, eftirfarandi ályktun:
„Í lok desember óskaði ráðuneyti landbúnaðar eftir samningum við SG um að skerða niðurgreiðslur á dreifingarkostnaði rafmagns. Skerðingin skyldi vera 30% og því bætt við að fulltrúar SG hefðu í raun enga samningsstöðu í málinu. Sérfræðingur SG metur áhrif skerðingarinnar til 25% hækkunar á rafmagnskostnaði garðyrkjubænda. Rafmagn er annar stærsti útgjaldaliður garðyrkjubænda á eftir launum.
Forsaga málsins er sú að vegna breytinga á lögum um raforku árið 2005 gerði SG samning við ríkið um 95% niðurgreiðslu á kostnaði við dreifingu rafmagns. Fyrirséð var að lagasetningin myndi leiða til 30% hækkunar á rafmagnskostnaði garðyrkjubænda. Kostnaður ríkisins af þessum niðurgreiðslum jókst úr 100 milljónum króna í 210 milljónir á árunum 2005-2009. Fyrir því voru tvær ástæður: notkun bænda (og þar með framleiðsla) jókst sem nam 32 milljónum en 77 milljónir stöfuðu af gjaldskrárhækkunum raforkufyrirtækja sem eru í eigu ríkisins.
Þessi hækkun raforkukostnaðar bætist ofan á þá ákvörðun sem ráðuneytið tilkynnti um í byrjun desember að skerða þyrfti vísitöluhækkun samnings um beingreiðslur til framleiðenda tómata, gúrku og papriku. Að mati stjórnarinnar leiðir sú ráðstöfunin til 2-3% skerðingu tekna. SG neitaði að fallast á slíka skerðingu og ber ríkisstjórnin því fulla ábyrgð á þeirri gjörð.
Stjórnin hefur verulegar áhyggjur af því að aðgerðir ríkisstjórnarinnar leiði til gjaldþrota meðal garðyrkjubænda verði ekkert að gert. Framleiðendur grænmetis og blóma geta ekki tekið á sig hækkun rafmangskostnaðar á sama tíma og tekjur þeirra eru skertar. Stjórnin SG krefst þess að ákvörðunum ráðuneytisins verði breytt og minnir í því sambandi á að aukin innlend framleiðsla hefur oft verið nefnd sem lausnin á yfirstandandi efnahagsvanda," að því er segir í ályktun.
Jafnframt samþykkti stjórnin ályktun varðandi skógarbændur á fundinum:
„Forráðamönnum fyrirtækja sem framleiða skógarplöntur hefur verið tjáð óformlega að þeir megi vænta 25% niðurskurðar á kaupum á plöntum á þessu ári og 45-50% á árinu 2010. Ástæðan er niðurskurður ríkisins á fjármagni til skógræktarverkefna. Fyrirtæki sem starfa við framleiðslu skógarplantna eru mjög sérhæfð og hafa fjárfest í búnaði til framleiðslunnar vegna fyrirhugaðra áætlana um stórfellda skógræktun á komandi árum og áratugum til að hamla gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Niðurskurðurinn kallar margvísleg vandamál yfir skógarbændur og tekjumissir þeirra þegar kemur fram á næsta ár.
Stjórnin telur að ástæða sé til þess að óttast að aðgerðar ríkisstjórnarinnar leiði til verulegra erfiðleika og jafnvel gjaldþrota meðal framleiðenda skógarplantna. Stjórn SG krefst þess að ríkisstjórnin endurskoði fjárveitingar til skógræktar."