Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, kynnti á blaðamannafundi fyrr í stuttu áréttingu ríkisstjórnar þess efnis að innistæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hérlendis verði tryggðar að fullu.
Aðspurður sagði Gylfi ástæðu þess, að þetta væri áréttað á þessum tímapunkti, þá að taka af allan vafa í hugum fólks um trygginguna og til að koma í veg fyrir óróa.
Gylfi sagði vinnu við að setja upp nýja bankakerfið á rústum þess gamla ganga í grundvallaratriðum vel. Sagði hann eftir sem áður stefnt að því að þeirri vinnu yrði lokið með sama hætti og ráð hefði verið gert fyrir, en að ferlinu seinki aðeins.
Tók hann fram að nýju viðskiptabankarnir myndu verða stofnanir með því að ríkissjóður muni tryggja þeim nýtt fé. Nýju bankarnir munu því byrja með hreint borð.
Fram kom í máli Gylfa að Fjármálaeftirlitið starfaði áfram þótt það hefði í augnablikinu enga stjórn. Sagðist hann reikna með því að ný stjórn verði skipuð á allra næstu dögum, sennilega fyrir vikulok.
Aðspurður hvort til greina komi að sameina banka sagðist Gylfi ekki geta svarað því að svo stöddu, þar sem ekki hefði verið tekið ákvörðun um það. Hann lýsti þeirri skoðun, að bankakerfið, eins og það var, hafi verið of stórt.
Spurður hvaða áhrif boðaður flutningur húsnæðislána frá bönkunum til Íbúðalánasjóðs myndi hafa á eignasamsetningu þeirra og eignastöðu, sagði Gylfi, að vissulega myndi það hafa áhrif, en að búast mætti við því að ríkið myndi bæta bönkunum það upp með öðrum hætti.
Aðspurður hvort hann teldi heppilegt að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið sagðist Gylfi þeirrar skoðunar að sameining væri ekki nauðsynleg svo lengi sem þessar tvær stofnanir störfuðu náið saman.
Spurður um hugmyndir þess efnis að Íslendingar taki upp norsku krónuna sagði Gylfi slíkt vel geta gengið, en ljóst megi vera að það geti þó aldrei verið framtíðarlausn.
Gylfi var inntur eftir svörum um stöðu mála í tengslum við Icesave-deiluna. Sagðist hann nýkominn að þessu samningsborði. Sagðist hann telja að deilan snérist núna fyrst og fremst um lánakjörin.