Eignir gamla Glitnis eru taldar í þúsundum milljarða króna, frekar en hundruðum, að sögn Kristjáns Þórarins Davíðssonar, framkvæmdastjóra Glitnis banka hf.
Unnið er að uppgjöri eignasafns gamla hluta Glitnis og um 20 manns vinna nú hjá fyrirtækinu. Í bígerð er að ráða tvo til viðbótar í þessari viku. Bankinn er í eigu kröfuhafa á bankann og laun starfsmanna eru greidd úr búinu. Tíminn sem uppgjörið tekur verður mjög líklega mældur í árum frekar en mánuðum.
Ekki er ljóst hvenær áætlun um hversu mikil verðmæti munu nást úr bankanum verður tilbúin.
Strax eftir bankahrunið mikla tók til starfa fimm manna skilanefnd, undir forystu Árna Tómassonar. Meðlimir hennar hittast enn daglega til að ráða ráðum sínum.
Skilanefndin starfar í umboði Fjármálaeftirlitsins sem jafnframt greiðir laun nefndarmanna.