Hestarnir gáfust fljótt upp

Fjölnir Þorgeirsson vann þrekvirki við björgunarstörf í Tjörninni í dag …
Fjölnir Þorgeirsson vann þrekvirki við björgunarstörf í Tjörninni í dag að mati viðstaddra. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég sagði þeim að taka einn hest í einu, en allir voru að tosa í beislin á hestunum sínum. Það var mitt mottó: Einn í einu,“ sagði Fjölnir Þorgeirsson, sem sýndi ótrúlegt snarræði og dugnað að mati viðstaddra við að bjarga tíu hestum sem lentu niður um ís á Tjörninni í dag. Fjölnir var að taka myndir fyrir Hestafréttir þegar ísinn brast.

„Ég sá að það var svo mikið fár á öllum og enginn að hugsa rökrétt. Það þurfti bara að taka aðeins stjórnina. Ég dreif mig í að hjálpa til,“ sagði Fjölnir. Hann tók af sér myndavélina og steypti sér út í ískalt vatnið.

„Ég lét þá stíga á lærið á mér og ýtti á lendina á þeim. Svo tosuðu aðrir í hrossin og þau hjálpuðu til. Maður lætur hófinn alveg að lærinu og þá fá þau viðspyrnu. Þegar þeir byrjuðu að spyrna sökk maður alveg upp að hálsi,“ sagði Fjölnir. Hann sagði að hestarnir hafi þurfti mikillar hvatningar við til þess að þeir reyndu að bjarga sér. Fjölnir sagði að hestar gefist fljótt upp við aðstæður við þessar. Eins áttu þeir bágt með að ná viðspyrnu í leirbotni Tjarnarinnar.

„Lífsviljinn hverfur hjá hestunum á einni til tveimur mínútum. Við vorum þarna ofan í í allavega tuttugu mínútur.“Fjölnir sagði að honum hafi vissulega verið kalt, en hann hafi ekkert spáð í það. „Aðalatriðið var að koma hestunum uppúr.“

Þarna voru margir landsþekktir gæðingar. „Fyrsti hesturinn sem ég tók eftir var Röðull frá Kálfholti. Eigandi hans, Ísleifur Jónsson, vann Landsmótið bæði í fyrra og hitteðfyrra. Hann horfði í augun á hestinum og var að tala við hann. Þá sagði kærastan mín: Þú verður að gera eitthvað í þessu.

Það voru allir orðnir dofnir. En fólkið þarna hjálpaðist að.  Ég sagði þeim að taka einn hest í einu, en allir voru að tosa í beislin á hestunum sínum. Það var mitt mottó: Einn í einu!“

Hestarnir voru kaldir og hraktir eftir baðið. Farið var með þá í heitt bað og þeir síðan þurrkaðir við hitablásara og settar á þá ábreiður. Fjölnir sagði að þeir hafi verið nokkuð skelkaðir, eins og við var að búast. Einn klárinn gafst alveg upp og var búinn að setja granirnar ofan í vatnið. Alveg uppgefinn.

Fjölnir fékk að fara í heita sturtu í Ráðhúsi Reykjavíkur og fékk þar lánað handklæði til að þurrka sér. Það var ekki þurr þráður á honum en kærastan hans var með kuldagalla sem hann gat farið í. 

Hestamenn sýndu mikla hreysti við björgun hestanna úr vökinni.
Hestamenn sýndu mikla hreysti við björgun hestanna úr vökinni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert