Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, er jafnaðarmaður af gamla skólanum og hefur litla samúð með viðskiptalífinu, segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við HÍ og bankaráðsmaður í Seðlabanka Íslands í grein sem birtist í bandaríska dagblaðinu Wall Street Journal. Hannes Hólmsteinn lýsir í greininni deilum Davíðs Oddssonar, formanns bankaráðs Seðlabankans og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stjórnarformanns Baugs.
Lýsir Hannes því að Davíð, sem Jóhanna hefur tilkynnt um að verði vikið frá störfum, hafi eignast ýmsa óvini meðal annars vegna vitsmuna sinna og sterks persónuleika. Óvinirnir séu ekki bara pólitískir andstæðingar heldur einhverjir af „auðjöfrum“ landsins.
Beitti fjölmiðlaveldi sínu í baráttunni gegn Davíð
Vegna ótta Davíðs um að of mikil völd færðust á hendur einum manni í íslenskum fjölmiðlum hafi hann lagt fram frumvarp til laga um eignarhald á fjölmiðlum. Þrátt fyrir að Alþingi hafi samþykkt lagafrumvarpið hafi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sem sé í nánum tengslum við Jón Ásgeir, neitað að skrifa undir lögin.
Að sögn Hannesar er óþarfi að fjölyrða um að Jón Ásgeir hafi beitt fjölmiðlaveldi sínu til þess að koma Davíð frá völdum. Vinstri flokkarnir hafi tekið höndum saman með Jóni Ásgeiriv við það. Hins vegar geti reynst nýrri ríkisstjórn erfitt að koma bankastjórn seðlabankans frá enda eigi hún að vera sjálfstæð.
Þráhyggjan gagnvart Davíð
Hannes Hólmsteinn segir í greininni að Davíð sé einn fárra Íslendinga sem hafi varað við bankahruninu. Hann hafi átt nokkra fundi með Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, leiðtoga Samfylkingarinnar, þar sem hann varaði þau við. Slíka fundi hafi Davíð átt með þeim allt frá árinu 2006. En Davíð hafi hins vegar ekki haft lagastoð fyrir því að bregðast við - hann gat einungis varað við því sem gæti gerst.
Að sögn Hannesar veldur þráhyggja vinstri aflanna gagnvart Davíð Oddssyni því að meginástæður fyrir því að hrunið varð meira á Íslandi en annars staðar vilji gleymast. Þær séu að íslensku bankarnir urðu of stórir fyrir Ísland og þegar við þurftum á því að halda, þá neituðu seðlabankar innan evrópska efnahagssvæðisins að koma til aðstoðar.