Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur samþykkti einróma í gær að heimila stuttar heimsóknir hunda, ásamt eiganda, á Hjúkrunarheimilið Hrafnistu.
Gæludýraeign og umgengni við gæludýr, hefur löngum verið talin hafa jákvæð áhrif á andlega, líkamlega og félagslega líðan eldri borgara og öryrkja.
Stjórnendur Hrafnistu fóru í síðasta mánuði fram á undanþágu 19. gr. reglugerðar um hollustuhætti. Þar segir m.a. að ekki megi hleypa hundum, köttum eða öðrum dýrum inn á heilbrigðis- og meðferðastofnanir. Heilbrigðisnefnd er þó heimilt, að fenginni beiðni hlutaðeigandi stofnunar að veita undanþágu til að halda hunda, ketti og önnur gæludýr á heilbrigðis- og meðferðastofnunum.
Í bréfi Gunnhildar Björgvinsdóttur, deildarstjóra H-1 deildar Hrafnistu til heilbrigðisnefndar Reykjavíkur er farið fram á að hundar fái að koma í heimsókn á hjúkrunarheimilið í 30 til 60 mínútur í senn, ásamt eiganda. Sá fyrirvari er þó settur á að valdi heimsóknirnar ónæði eða óþægindum hjá íbúum, verði þeim hætt. Þá er áskilið að heilbrigðiseftirlitið setji strangari reglur um heimsóknirnar, ef það telst nauðsynlegt í ljósi reynslunnar.