„Heljarmenni þessir hestamenn“

Tíu hestar og knapar þeirra lentu í vökinni. Fleiri stukku …
Tíu hestar og knapar þeirra lentu í vökinni. Fleiri stukku ofan í. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Maður sá hvernig ísinn dúaði undan hestunum og aldan varð sífellt stærri þar til ísinn brast,“ sagði Kjartan Þorbjörnsson/Golli ljósmyndari Morgunblaðsins. Hann var að mynda reiðsýningu á Tjörninni í dag þegar tíu hestar og knapar þeirra fóru niður um ís og fengu hrollkalt bað.

Tilefni reiðsýningarinnar var blaðamannafundur til kynningar á Meistaradeild VÍS.  Fyrst riðu knaparnir einn og einn og fundu þá viðstaddir hvernig ísinn dúaði undan þeim. Knaparnir og aðrir viðstaddir ræddu það sín á milli að ísinn væri í það tæpasta og þyrfti að hafa gott bil á milli hestanna. Ísinn hélt þar til lagt var upp í hópreið meðfram Tjarnargötunni í átt að Ráðhúsi Reykjavíkur.

Þór Bæring Ólafsson, starfsmaður í markaðsdeild VÍS, taldi að tveir hestar og knapar þeirra hafi sloppið við kalda baðið. Hann sagði að þarna hafi verið miklir gæðingar og margir fremstu knapar landsins mættir. Tjörnin var ekki dýpri en svo þar sem vökin myndaðist að hrossin náðu uppúr með höfuðin. Botninn var hins vegar leðjukenndur og lítil viðspyrna í honum.

„Það greip um sig smá panikk, en þeir eru mikil heljarmenni þessir hestamenn,“ sagði Þór. „Þeir stukku bara útí og ýttu undir hestana og toguðu þá uppúr. Ótrúlega flott!“ Þór sagði að margir hafi lagt sig fram en fremstur í flokki hafi verið Fjölnir Þorgeirsson. Þarna hafi verið unnið kraftaverk.

Þór taldi að hvorki hrossum né knöpum hafi orðið meint af volkinu. Bæði sjúkralið og lögregla komu á staðinn. Þór sagði að knaparnir hafi bara viljað hressa sig á heitu kaffi og komast í þurr föt.

Blaðamannafundurinn hófst kl.14:00 í Tjarnarkaffi í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þar var keppni vetrarins kynnt ásamt því að undirrita átti kostunarsamningar við þau fyrirtæki sem munu styðja við deildina í vetur. Að fundinum loknum sýndu knapar í Meistaradeild VÍS gæðinga sína á ísilagðri Tjörninni.

Lögreglan hafði gefið leyfi fyrir reiðsýningunni að beiðni Reykjavíkurborgar.  Þorgrímur Hallgrímsson, rekstrarstjóri hverfastöðvarinnar við Njarðargötu, sagði að þeir hafi gert skautasvell til að byrja með og voru svo látnir bæta við það í morgun. Þorgrímur sagði að ísinn á Tjörninni hafi verið 10-12 sentimetra þykkur. 

„Í sjálfu sér var þetta alveg nóg. Þeir voru búnir að ríða þarna fram og til baka en flöskuðu á því að fara í breiðfylkingu. Þá lentu um sjö tonn á litlu svæði,“ sagði Þorgrímur. Hann er sjálfur hestamaður, vanur ísreið og segir eðlilegt að ís dúi undan ríðandi hestum. Þorgrímur var sjálfur á Tjörninni í dag og aðstoðaði við björgun hestanna. Hann var á leið heim að skipta um buxur þegar mbl.is talaði við hann. 

Þorgrímur sagði að vatnið í Tjörninni sé yfirleitt um mittisdjúpt, en svo sé 30-40 sentimetra drullulag á botninum. Það hafi gert klárunum erfitt fyrir að rífa sig upp.

Hestamenn sýndu mikla hreysti við björgun hestanna úr vökinni.
Hestamenn sýndu mikla hreysti við björgun hestanna úr vökinni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert