Leggur fram tilboð í Árvakur

Morgunblaðshúsið í Hádegismóum.
Morgunblaðshúsið í Hádegismóum. mbl.is/ÞÖK

Hópur sem kallar sig Almenningshlutafélag um Morgunblaðið hyggst gera Nýja Glitni tilboð í Árvakur hf. Samkvæmt áætlun bankans þurfa óskuldbindandi tilboð að berast í síðasta lagi síðdegis á morgun. Bankinn mun síðan velja þá sem leyft verður að gera skuldbindandi tilboð. Frestur til að skila því tilboði rennur út um miðjan mánuðinn.  

Í tilkynningu frá hópnum kemur fram, að samið hafi verið við VBS fjárfestingabanka um að koma fram fyrir sína hönd gagnvart Nýja Glitni Sérfræðingar VBS fjárfestingabanka hafi farið yfir útboðsgögn um Árvakur frá Nýja Glitni, en hópurinn fékk gögnin í hendur síðastliðin föstudag. Gert sé ráð fyrir að drög að næstu skrefum liggi fyrir á morgun samhliða tilboði.

Þá kemur fram, að yfir eitt þúsund manns séu þátttakendur í undirbúningi að Almenningshlutafélagi um Morgunblaðið. Fjölmargir séu félagar á Facebook síðu hópsins, þar sem hann kom fyrst upp á yfirborðið fyrir fáeinum dögum, auk þess sem töluverður hópur fólks hafi  nú þegar sýnt framtakinu stuðning í verki með því að heita að leggja til hlutafé  í gegnum vefsíðuna www.almenningshlutafelag.is. Enn er verið að taka við skráningum áhugasamra á síðunni.

Hópurinn segir að hugmyndin sé að til verði stór og öflugur íslenskur fjölmiðill sem sé í dreifðri eignaraðild og hvorki í tengslum við stjórnmálaflokka né viðskiptablokkir. Þetta markmið verði tryggt með ákvæðum í stofnsamþykktum væntanlegs hlutafélags, sem kveði á um hömlur á atkvæðisrétti hvers einstaks hluthafa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert