Meirihluti fylgjandi hvalveiðum

mbl.is

Tveir þriðju hlut­ar lands­manna eru fylgj­andi hval­veiðum í at­vinnu­skyni, eða 67,2%, sam­kvæmt skoðana­könn­un sem Capacent Gallup vann fyr­ir Sjáv­ar­nytj­ar um helg­ina. And­víg­ir voru  19,7% og 13,2% tóku ekki af­stöðu. Úrtak könn­un­ar­inn­ar var 1597 manns og svar­hlut­fall 60,5%. 

Spurt var: Ertu hlynnt­ur því eða and­víg­ur að Íslend­ing­ar stundi hval­veiðar í at­vinnu­skyni?

„Þetta eru ákaf­lega já­kvæðar niður­stöður og í sam­ræmi við það sem við reiknuðum með. Þessi af­ger­andi stuðning­ur við hval­veiðar lýs­ir vilja meiri­hluta þjóðar­inn­ar. Niður­stöðurn­ar eru at­hygli­verðar í ljósi þess að könn­un­in er fram­kvæmd mitt í öllu því moldviðri sem þyrlað var upp í kjöl­far ákvörðunar frá­far­andi sjáv­ar­út­vegs­ráðherra,“ seg­ir Gunn­ar Berg­mann Jóns­son talsmaður Sjáv­ar­nytja.

Í könn­un­inni var einnig spurt hvort þátt­tak­end­ur teldu að hval­veiðar í at­vinnu­skyni myndu bæta, skaða eða ekki hafa nein áhrif á ímynd Íslands er­lend­is. Alls töldu 58,9% að veiðarn­ar myndu ekki hafa nein áhrif á ímynd lands­ins eða bæta hana en 41,1% töldu veiðarn­ar skaða hana.

Þá reynd­ust 56,9% hlynnt ákvörðun frá­far­andi sjáv­ar­út­vegs­ráðherra um út­gáfu hval­veiðiheim­ilda en 30,6% voru henni and­víg. Alls töldu 57,6% að hval­veiðar í at­vinnu­skyni hefðu já­kvæð áhrif á at­vinnu­ástandið og 61,2% töldu að þær myndu hafa já­kvæð áhrif á efna­hag þjóðar­inn­ar.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert