Meirihluti fylgjandi hvalveiðum

mbl.is

Tveir þriðju hlutar landsmanna eru fylgjandi hvalveiðum í atvinnuskyni, eða 67,2%, samkvæmt skoðanakönnun sem Capacent Gallup vann fyrir Sjávarnytjar um helgina. Andvígir voru  19,7% og 13,2% tóku ekki afstöðu. Úrtak könnunarinnar var 1597 manns og svarhlutfall 60,5%. 

Spurt var: Ertu hlynntur því eða andvígur að Íslendingar stundi hvalveiðar í atvinnuskyni?

„Þetta eru ákaflega jákvæðar niðurstöður og í samræmi við það sem við reiknuðum með. Þessi afgerandi stuðningur við hvalveiðar lýsir vilja meirihluta þjóðarinnar. Niðurstöðurnar eru athygliverðar í ljósi þess að könnunin er framkvæmd mitt í öllu því moldviðri sem þyrlað var upp í kjölfar ákvörðunar fráfarandi sjávarútvegsráðherra,“ segir Gunnar Bergmann Jónsson talsmaður Sjávarnytja.

Í könnuninni var einnig spurt hvort þátttakendur teldu að hvalveiðar í atvinnuskyni myndu bæta, skaða eða ekki hafa nein áhrif á ímynd Íslands erlendis. Alls töldu 58,9% að veiðarnar myndu ekki hafa nein áhrif á ímynd landsins eða bæta hana en 41,1% töldu veiðarnar skaða hana.

Þá reyndust 56,9% hlynnt ákvörðun fráfarandi sjávarútvegsráðherra um útgáfu hvalveiðiheimilda en 30,6% voru henni andvíg. Alls töldu 57,6% að hvalveiðar í atvinnuskyni hefðu jákvæð áhrif á atvinnuástandið og 61,2% töldu að þær myndu hafa jákvæð áhrif á efnahag þjóðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka