Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, hefur verið sett til að gegna embætti ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu til 30. apríl næstkomandi. Í stað Ragnhildar hefur Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir verið sett ráðuneytisstjóri í félags- og tryggingamálaráðuneytinu.
Hanna Sigríður er fædd 22. september 1971. Hún útskrifaðist sem lögfræðingur frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2000 en hafði áður lokið B.A.-prófi í sálarfræði frá sama skóla árið 1998. Hanna Sigríður hefur verið skrifstofustjóri jafnréttis- og vinnumálasviðs félags- og tryggingamálaráðuneytisins frá því í september 2004 en hafði áður starfað sem lögfræðingur í ráðuneytinu.
Hanna Sigríður er í sambúð með Ólafi Erni Svanssyni hæstaréttarlögmanni og eiga þau tvö börn, Ásu Rún og Emblu Rut.