Svandís Svavarsdóttir gagnrýndi í dag að ráðgert vær að semja um orkusölu frá Hellisheið itil álvers í Helguvík án þess að tryggt væri að næg orka yrði fyrir hendi fyrir framleiðsluna. Sagði hún að hugmyndirnar minntu fólk á loftkastala útrásarinnar, þetta væri ,,óttalega 2007".
Borgarfulltrúi VG minnti í umræðum um samninginn á þá fyrirvara sem slegnir hefðu verið í áliti Skipulagsstofnunar árið 2007 vegna álvershugmyndanna. Áður en Norðurál fengi framkvæmdaleyfi þyrfti m.a. að liggja fyrir hvort fyrirtækið væri með þá losunarheimild sem það þyrfti og einnig þyrfti að liggja fyrir mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda og línulagna.
Svandís minnti á að 360 þúsund tonna álver, eins og nú er rætt um, þyrfti alls 625 megavött, þar af ættu 250 megavött að koma frá OR og þá hlyti afgangurinn, 375 þúsund megavött, að koma frá Hitaveitu Suðurnesja. En þaðan hefðu komið þau skilaboð að fyrirtækið gæti ekki útvgað svo mikla orku. Iðnaðarráðherra hefði sagt að ekki kæmi til greina að virkja í efri hluta Þjórsár og því erfitt að sjá hvaðan orkan ætti að koma.
,,Við erum svo sannarlega að koma úr umhverfi þar sem það tíðkaðist um árabil, og það er kannski ástæðan fyrir því að samfélagið er komið þar sem það er, að stöðugt var verið að búa til verðmæti úr einhverjum væntingum og meldingum inn í framtíðina til að geta aukið þannig hagnað fyrirtækja eða félaga. Manni sýnist að þessi áform geti að hluta til skýrst af þvílíkum tilfæringum sem einhver myndi þá kalla óttalega 2007."