Efasemdir komu upp á borgarstjórnarfundi í dag um það hvort Guðlaugur Sverrisson, formaður stjórnar Orkuveitunnar og einn af varamönnum Framsóknarflokksins, mætti flytja ræðu um sölu á orku til álvers í Helguvík. Ákveðið var að málið yrði tekið fyrir á næsta fundi forsætisnefndar.
Ólafur F. Magnússon sagði að um skrípaleik væri að ræða, Guðlaugur væri ekki kjörinn varamaður Framsóknarflokksins í borgarstjórn og þurrka bæri út ræðu hans. Frjálslyndi flokkurinn hefði ekki fengið leyfi á sínum tíma til að leyfa varamanni flokksins, Margréti Sverrisdóttur, að tala.
„Ég mótmæli þessum skrípaleik og þessu misferli og því siðleysi sem í þessu felst. Ég hafna því að Framsóknarflokkurinn geti farið neðarlega á lista og kallað inn menn hingað i borgarstjórn Reykjavíkur og sniðgengið þær reglur sem eru látnar gilda um önnur framboð í borginni."
Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri svaraði Ólafi og sagði að mörg dæmi væru um að fólk neðarlega á lista hefðu fengið að tala á fundum borgarstjórnar og ekki verið gerðar við það athugasemdir.