Með skynsamlegri nýtingu hvalastofna væri að auka útflutningstekjur af þorski og öðrum arðbærum tegundum um tugi milljarða króna. Það yrði til viðbótar þeirri verðmæta- og tekjusköpun sem fylgdu hvalveiðum, að mati Friðriks J. Arngrímssonar, framkvæmdastjóra Landssambands íslenskra útvegsmanna.
Þetta kemur fram á vef LÍÚ í dag. Þar er bent á að samkvæmt fjölstofnalíkani Hafrannsóknastofnunarinnar gæti afrakstur þorskstofnsins orðið um 20% minni en ella njóti hvalastofnar algerrar friðunar. Hvalastofnar við Íslandsstrendur eru nú taldir vera nálægt upprunalegri stærð. Sérfræðingar stofnunarinnar leggja til að hvalveiðar séu stundaðar með sjálfbærum hætti og hvalastofnum haldið í 70% af hámarksstærð.
Einnig segir í greininni að afrán hvala umhverfis Ísland sé gríðarmikið. Talið er að hvalir éti um tvær milljónir tonna af fiski á Íslandsmiðum á hverju ári. Það er umtalsvert meira en íslenski fiskveiðiflotinn veiðir árlega. Tæpur helmingur þeirra sex milljóna tonna af fæðu, sem talið er að hvalir við Ísland éti, er sviflæg krabbadýr. Um ein milljón tonna er smokkfiskur og um tvær milljónir tonna fiskur.