Vanmetur mikilvægið

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.
Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins. mbl.is

„Við erum helst ósátt við það sem hann segir ekki, frekar en það sem hann segir. Það sem er jákvætt við greinargerðina er hversu ítarleg hún er. Það væri óskandi að þeir sem eru að kynna sér áliðnaðinn og bera á borð skoðanir í þeim efnum ynnu heimavinnuna sína jafn vel og hann," segir Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins (SI), um úttekt Indriða H. Þorlákssonar, fyrrverandi ríkisskattstjóra, á því sem hann telur vera takmarkaðan arð af álframleiðslu fyrir þjóðarbúið.

„Það eru margir áhugaverðir punktar í greinargerðinni og maður hefur beinlínis ekki forsendur til rengja margt af því sem hann segir. Það er hins vegar fjölmargt sem þyrfti að benda á og skoða líka," segir Bjarni Már og nefnir dæmi.

„Indriði gengur út frá tölum frá 2007 og því í raun aðeins út frá tveimur fyrirtækjum, álverunum í Straumsvík og á Grundartanga.

Vægi áliðnaðarins í þjóðarframleiðslunni á árinu 2008 verður vafalítið mun meira. Það gefur auga leið að hlutfallslegt vægi áliðnaðarins stækkar umtalsvert með helmings aukningu í framleiðslugetu. Þetta vægi hefur að sjálfsögðu aukist eftir hrun fjármálageirans."

Horfa ber til fleiri þátta

Bjarni Már leggur sérstaka áherslu á að Samtök iðnaðarins vilji ekki gera lítið úr greinargerðinni.

Samtökin telji hins vegar einsýnt að horfa beri til fleiri þátta.

„Hann gerir lítið úr öllum afleiddum störfum og fjallar raunar um það af hverju hann gerir það. Það viðhorf Indriða og annarra að ekki beri að horfa til afleiddra starfa, með þeim rökum að þau verði hvort sem er til í hagkerfinu, er að mínu mati veik röksemd, sérstaklega þegar aðstæður eru eins og núna þegar við horfum upp á vaxandi atvinnuleysi. Það er vandséð hvað allt þetta fólk ætti annars að vera að gera."

Bjarni Már vísar því næst til fjölda fyrirtækja, svo sem í málmiðnaði, sem hafi stöðugar tekjur af þjónustu við álfyrirtækin. Þá séu mörg dæmi um sprotafyrirtæki sem hafi orðið til í tengslum við álverin og ljóst að verkfræðingar og aðrir tæknimenn hafi notið góðs af þeirri starfsemi og þeim framkvæmdum sem þeim tengist.

Uppbyggingarhliðin vanmetin

Enn fremur megi gagnrýna að Indriði einblíni á þann ávinning sem eingöngu hljótist af rekstri fyrirtækjanna en ekki af þeim tekjum sem hljótist af umsvifum af þeim miklu framkvæmdum sem fylgi uppbyggingu í áliðnaðinum, framkvæmdum sem vegi þungt þegar slaki er í hagkerfinu, eins og nú.

Bjarni Már segir einnig að ekki sé hægt að gefa sér að arður af orkusölunni sé lítill, með vísun til ummæla forsvarsmanna orkufyrirtækjanna um að hagnaðurinn sé vel viðunandi.

Búrfellsvirkjun er dæmi

Dæmi sé Búrfellsvirkjun sem hafi þegar borgað sig upp og skili því góðum skatttekjum af orkusölunni.

Hvað snerti þá staðreynd að hagnaðurinn renni til erlendra aðila bendir Bjarni Már á að þetta sé veruleikinn í alþjóðavæddu hagkerfi og að Íslendingar setji ekki spurningarmerki við það þegar íslensk fyrirtæki með starfsemi erlendis láti hagnaðinn renna heim til Íslands.

„Atvinnustefna í flestum löndum miðar að því að laða að erlenda fjárfestingu. Það eru sterk tengsl milli hagvaxtar og beinnar erlendrar fjárfestingar. Það er ljóst að álverin eru einu erlendu aðilarnir sem hafa fjárfest mikið á Íslandi. Það væri óskandi ef hægt væri að laða fjölbreyttari hóp til landsins," segir hann.

Frá Grundartanga. Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, telur arðinn af …
Frá Grundartanga. Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, telur arðinn af álvinnslu fyrir íslenska þjóðarbúið vera ofmetinn. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert