Síðustu daga janúarmánaðar komu um 100 einstaklingar á dag til þess að fá ókeypis máltíð á kaffistofu Samhjálpar. Samtals voru gestakomurnar á dag um 120 sem þýðir að sumir gestanna hafi komið tvisvar, að því er Heiðar Guðnason, forstöðumaður Samhjálpar, greinir frá.
„Það hafa komið toppar í gegnum árin en ég man ekki eftir svona toppi í janúarmánuði,“ segir Heiðar.
Gestunum hefur fjölgað talsvert frá því í haust en þá komu suma daga allt að 80 manns. Að sögn Heiðars hefur fjölgunin einkum orðið í hópi þeirra sem ekki eru í neyslu.
„Sumir koma alla daga en þeir eru þó fleiri sem nýta sér ekki kaffistofuna fyrr en peningarnir eru búnir síðari hluta mánaðarins. Við höfum líka tekið eftir því að fjölskyldur með börn eru farnar að koma hingað,“ segir Heiðar.
Gestum dagsetursins hjá Hjálpræðishernum í Reykjavík hefur einnig fjölgað að undanförnu. Upp úr miðjum janúar komu 20 til 30 manns á hverjum degi og alls voru gestakomurnar í janúar um 620 en hafa að jafnaði verið um 550 frá því að dagsetrið var opnað í nóvember 2007.