Kostnaður við biðlaun þriggja bankastjóra Seðlabankans verður 44 milljónir, að mati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Þetta kemur fram í umsögn með Seðlabankafrumvarpi forsætisráðherra.
Í umsögn fjárlagaskrifstofunnar um frumvarpið er m.a. fjallað um biðlaunarétt núverandi bankastjóra Seðlabankans. Fjárlagaskrifstofan telur að verði stöður þeirra lagðar niður vegna skipulagsbreytinga gildi ákvæði um biðlaunaréttindi í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
„Samkvæmt því er gert ráð fyrir að tveir bankastjóranna eigi rétt til 12 mánaða biðlauna, sem myndast eftir 15 ára störf í þjónustu ríkisins sem embættismenn, en einn til 6 mánaða þar sem starfstími alþingismanna og ráðherra telst ekki með þjónustualdri hjá ríkinu vegna biðlaunaréttar vegna þess að þeir teljast ekki vera embættismenn heldur falla undir lög um þingfararkaup. Tímabundinn launakostnaður bankans vegna þess er áætlaður um 44 m.kr,“ segir í umsögninni.