Eitt brýnasta viðfangsefnið nú er að sem fyrst verði komið til móts við skuldug heimili. Lækka þarf stýrivexti Seðlabankans og það hlýtur að vera forgangsmál nýrrar ríkisstjórnar að hefja vaxtalækkunarferlið, að mati Birkis Jóns Jónssonar alþingismanns. Hann sagði þetta í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld.
Birkir nefndi að minnihlutastjórnir væru sjaldgæfar hér á landi. Við slíkar aðstæður þyrfti framkvæmdavaldið að leita í meiri mæli en ella til Alþingis. Á undanförnum árum hafi verið hér ráðherraræði sem okkur væri lítill sómi að. Birkir sagði að Framsóknarflokkurinn myndi veita góðum málum brautargengi, hvort sem þau kæmu frá stjórn eða stjórnarandstöðu.
Birkir sagði mikilvægt að efla verðmætasköpun í landinu og fá inn í landið erlenda fjárfestingu. Þá þurfi að efla bankakerfið svo fyrirtækin fái lánsfé. Ekki verið unað við núverandi ástand þegar fyrirtækin fái ekki rekstrarfé. Einnig þurfi að huga sérstaklega að stöðu sparisjóðanna, þeir muni gegna lykilhlutverki í viðreisn fjármálakerfisins. Hún þurfi að byggjast á samfélagslegum forsendum en ekki blindri frjálshyggju.
Þrátt fyrir tímabundna kreppu ríður á að Íslendingar standi saman. Birkir sagði að menn skyldu hafa það hugfast að innviðir íslenska samfélags væru með því besta sem gerðist í heiminum. Hann nefndi gott húsnæði, ríkar auðlindir og síðast en ekki síst mikinn mannauð sem fólginn er í dugmikilli og vel menntaðri þjóð.