Dæmdir fyrir veiðar án kvóta

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvo karlmenn til að greiða 1,2 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs fyrir brot gegn lögum um nytjastofna sjávar. Annar mannanna var skipstjóri fiskiskips sem hélt í 23 veiðiferðir án lögboðinna aflaheimilda. Greiði mennirnir ekki refsinguna innan fjögurra vikna bíður þeirra 44 daga fangelsisvist.

Fram kom við rannnsókn lögreglu, að skipið, Kambaröst RE, fór á tímabilinu frá nóvember 2006 fram í maí 2007 í samtals 23 veiðiferðir án þess að það hefði fullnægjandi aflaheimildir í upphafi veiðiferða. Skipstjórinn játaði að hafa farið í umræddar veiðiferðir. Hann bar að aflaheimildir hefðu verið fluttar yfir á skipið jafnóðum sem aflaðist. Hinn maðurinn, stjórnarformaður einkahlutafélags sem gerði skipið út, átti að sjá um að útvega aflaheimildir.

Maðurinn sagði skipið hafa verið kvótalaust og oft hafi aðeins verið lítilræði af aflaheimildum á því í upphafi veiðiferðar. Undir lok veiðiferðar kvaðst skipstjórinn hafa haft samband við stjórnarformanninn og sagt honum að hann væri að fara landa og hvað hefði aflast. Það hafi þá verið hlutverk stjórnarformannsins að útvega þær aflaheimildir sem þurfti. Skipstjórinn sagði þetta viðgangast í flotanum og með vitneskju Fiskistofu. Sú fullyrðing var studd framburði vitna. Það var hins vegar Fiskistofa sem kærði mennina til lögreglu.

Í niðurstöðu dómsins segir að það geti ekki leyst mennina undan refsingu „að Fiskistofa kunni að hafa haft þann hátt á í þessum málum sem lýst var“. Voru mennirnir því sektaðir um 1,2 milljón króna hvor. Og til að greiða verjendum sínum 300 þúsund krónur í málsvarnarlaun.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert