„Ísland er ekkert bananalýðveldi“

Ráðherrabifreið Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir framan stjórnarráðið.
Ráðherrabifreið Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir framan stjórnarráðið. Reuters

Financial Times fjallar um stöðu mála á Íslandi í ritstjórnargrein sem var birt á vef blaðsins í gær. Þar er rætt um þau verkefni sem ný minnihlutaríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir stendur frammi fyrir. Þá er bent á það að þrátt fyrir erfiða tíma þá séu grunnstoðir efnahagslífsins á Íslandi sterkar. Íslendingar eigi hins vegar að ganga í ESB.

Greinarhöfundur segir að ríkisstjórnin megi engan tíma missa til að snúa hlutunum við. Hann segir jafnframt að ef menn horfi fram hjá bankahruninu þá sé í raun aðdáunarvert hvað fámennri þjóð hafi tekist í gegnum tíðina. Hann nefnir íslenskan fiskiðnað og að Íslendingar hanni og framleiði tækjabúnað fyrir fiskvinnslur um allan heim. Þá hafi náttúrauðlindir á borð við vatnsorku og jarðhita dregið að sér fjárfestingar í álverum. Auk þess hafi Íslendingar getið sér gott orð á sviði menningar og lista, og nefnir m.a. Björk Guðmundsdóttur og Halldór Laxness

Bent er á að þrátt fyrir að fjármálageirinn hafi þurrkast út þá sé engin ástæða fyrir því að annar iðnaður í landinu geti ekki blómstrað á ný. „Ísland er ekkert bananalýðveldi,“ skrifar greinarhöfundur.  Verkefnin framundan séu hins vegar stór.

Stærsta verkefni sé á sviði gjaldeyrismála. Í dag sé ekki lengur mögulegt fyrir Íslendinga að halda úti eigin gjaldmiðli. Besta lausnin sé því að ganga í Evrópusambandið, þar sem um helmingur allra viðskipta íslensku þjóðarinnar sé við evrusvæðið. Greinarhöfundur segir að það væri skömm ef Vinstri grænir, sem myndi nú ríkisstjórn með Samfylkingunni, mótmæli upptöku evrunnar. Geri þeir það, hins vegar, þá verði Íslendingar að kanna grundvöll fyrir myntsamstarf við Norðurlöndin. Á sama tíma verði tiltekt í bankakerfinu að eiga sér stað.

Leiðari Financial Times 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka