Fréttaskýring: Loðnan skiptir máli fyrir alla í plássinu

Augu margra sem tengjast loðnuveiðum og -vinnslu fylgjast náið með ferðum rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar. Skipinu var í gær stefnt til leitar á Papagrunni, austur af Stokksnesi. Þar varð vart loðnu í fyrradag og standa vonir til að hægt verði að gefa út upphafskvóta. Fiskifræðingar miða við að finna þurfi minnst 400 þúsund tonn áður en kvóti verður gefinn út, en um helgina höfðu um 370 þúsund tonn verið mæld af loðnu.

Loðnuveiðar skipta gríðarlegu máli fyrir þjóðarbúið og ákveðin svæði byggja mjög á loðnunni. Á Vopnafirði, í Fjarðabyggð, Höfn í Hornafirði, Vestmannaeyjum, Akranesi og fleiri stöðum eru öflug fyrirtæki í loðnuvinnslu og útgerð sem hafa síðustu ár þurft að mæta samdrætti. Nú er það von fólks að svo mikið finnist af loðnu svo hægt verði að hefja veiðar, bæði til bræðslu, frystingar og hrognatöku. Síðasta afurðin er verðmætust og fer að mestu á Japansmarkað.

Ef dæmi er tekið af Fjarðabyggð er uppsjávarafli mikilvægur fyrir samfélagið og eru fyrirtækin þar með hátt í 40% af loðnukvótanum. Rekstur fyrirtækjanna, atvinna fólksins og tekjur bæjarsjóðs er allt samtengt loðnuveiðunum. Einn viðmælenda orðaði það þannig í gær, að loðnan skipti máli fyrir alla í plássinu.

Samvinna við loðnuleit

Samvinna Hafrannsóknastofnunar og útgerðarmanna við loðnuleit hefur verið athyglisverð á síðustu vertíðum. Nú eru áþekk tæki til fiskileitar um borð í nokkrum loðnuskipanna og eru um borð í skipum Hafró. Þannig tóku Lundey, Faxi og Börkur ásamt Árna Friðrikssyni þátt í loðnuleit í síðasta mánuði og var stuðst við ákveðna leitarferla frá Hafrannsóknastofnun.

Á sunnudagskvöld var síðan haldinn fundur fulltrúa Hafró og útgerðanna. Í framhaldi af því var ákveðið að Aðalsteinn Jónsson, sem var á leið á gulldeplumiðin suðvestur af landinu, færi yfir svæðið á Papagrunni til að kanna hvort þar væri loðnu að finna. Nú er verið að kanna vísbendingar sem þá var aflað.

Eins voru skipstjórar á Ingunni, Lundey og Faxa beðnir að kanna ákveðin svæði á heimleið af kolmunna við Færeyjar. Þá könnuðu Margrét og Súlan önnur svæði á leið af síldarmiðum vestur af landinu.

Ekki er ofsögum sagt að loðnan hafi verið dyntótt síðustu ár og ekki verið á vísan að róa með göngur hennar eins og áður. Útgerðir nótaskipa eru orðnar ýmsu vanar á síðustu mánuðum og hafa lagað sig að erfiðum og síbreytilegum aðstæðum.

Loðnuvertíðin í fyrra var erfið, en síðan kom góður afli í sumar af norsk-íslenskri síld að ógleymdum makrílnum, sem var gulls ígildi fyrir margar útgerðir. Veiðar á íslensku sumargotssíldinni fóru vel af stað í haust, en þá kom mikið áfall er sýking reyndist í stórum hluta stofnsins. Eigi að síður rættist þokkalega úr vertíðinni þó ekki færi eins mikið til manneldis og áætlað hafði verið.

Kolmunnavertíðin suður af Færeyjum byrjaði allvel, en stöðugar brælur og minnkandi afli gerðu það að verkum að öll skipin hafa nú hætt kolmunnaveiðum, í bili að minnsta kosti. Kærkominn leynigestur hafði líka birst á sviðinu; norræn gulldepla, sem ekki hafði tekist að veiða að ráði fyrr en Huginsmenn frá Vestmannaeyjum náðu ágætum árangri. Fleiri fylgdu í kjölfarið og nú eru 17 skip við veiðar á þessum smágerða miðsjávarfiski, e

Með fimmtung

Tvö fyrirtæki eru með um fimmtung loðnukvótans hvort. Ísfélagið í Vestmannaeyjum er með 20,6% loðnukvótans, HB Grandi er með 18,7%, Síldarvinnslan í Neskaupstað með 16%, Vinnslustöðin í Eyjum með 11,7%, Samherji með 9%, Eskja á Eskifirði með 9%, Skinney Þinganes á Höfn með 8%, Gjögur með 3%, Bjarni Ólafsson með 2,5%, og Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði með 1,75%.

Fjárfest í loðnunni

Þótt loðnan hafi verið erfið síðustu ár hefur eigi að síður verið fjárfest í henni. Nefna má að HB Grandi, í samvinnu við Skagann hf. á Akranesi, hefur þróað hrognaþurrkunarvélar. Ein slík vél var sett upp á Vopnafirði og önnur á Akranesi. Fjárfestingin kostar tugi milljóna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert