Viðskiptaráðuneytið staðfesti í bréfum til breska fjármálaráðuneytisins 20. ágúst 2008 og 5. október 2008 að íslenska ríkisstjórnin myndi standa við bakið á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) svo sjóðurinn gæti staðið skil á lágmarks innstæðutryggingum.
Þetta kemur fram í svari viðskiptaráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur alþingismanns um tvö bréf ráðherrans til breska fjármálaráðuneytisins sem var lagt fram á Alþingi í dag.
Í bréfinu frá 20. ágúst 2008 er vísað til viðræðna við breska fjármálaráðuneytið 31. júlí það ár og bréfs þess frá 7. ágúst sama ár þar sem Bretarnir spurðu ýmissa spurninga um íslenska tryggingarsjóðinn. Viðskiptaráðuneytið svaraði nokkrum þessara spurninga með tölvupósti 14. ágúst, þeim tveim sem útaf stóðu var svarað með bréfinu 20. ágúst.
Þar segir, í lauslegri þýðingu, að vilji svo ólíklega til, að mati viðskiptaráðuneytisins, að stjórn TIF geti ekki aflað nægilegra fjármuna á fjármagnsmörkuðum, fullvissi viðskiptaráðuneytið breska fjármálaráðuneytið um að íslenska ríkisstjórnin muni gera allt það sem ábyrg ríkisstjórn geri við slíkar kringumstæður, þar með talið að aðstoða TIF við að útvega nægilega fjármuni svo tryggingarsjóðurinn gæti greitt lágmarkstryggingu.
Enn fremur er bent á að lögin um TIF voru samþykkt 1998 til þess að fullgilda tilskipun 94/19/EC um sama efni. Í bréfinu segir að viðskiptaráðuneytið sé að endurskoða löggjöfina í ljósi þróunar fjármálageirans á nýliðnum árum. Þar átti m.a. að skoða fjármögnun og starfsreglur. Ætlunin var að leggja fram frumvarp í þessa veru þegar Alþingi kæmi saman í október s.l.
Viðskiptaráðuneytið bendir einnig á að komi upp sú staða að fjármálastofnun með traust fjárhlutfall lendi í greiðsluvanda vegna þess að fjármagnseigendur taki skyndilega út fjármuni í stórum stíl muni Seðlabankinn geta veitt aðstoð sem lánveitandi til þrautavara. Íslenska ríkisstjórnin mundi styðja Seðlabankann í því. Við slíkar kringumstæður kæmi ekki til kasta TIF.
Þá undirstrikar viðskiptaráðuneytið að ríkisstjórninni séu fullljósar skuldbindingar sínar gagnvar EES-sáttmálanum varðandi TIF og muni standa við þær.
Í bréfi viðskiptaráðuneytisins til breska fjármálaráðuneytisins frá 5. ágúst kemur m.a. fram að íslenska ríkisstjórnin myndi aðstoða TIF við útvegun nægilegra fjármuna svo sjóðurinn gæti greitt lágmarks innstæðutryggingar kæmi til þess að Landsbankinn og útibú hans í Bretlandi féllu.
Þess skal getið hér að lágmarkstryggingin er 20.887 evrur. Tryggingin nær til innistæðna einstaklinga og fyrirtækja í hverjum banka.