Ódýrast í Bónus

8,1% verðmunur reyndist vera á dýrustu og ódýrustu matvörukörfunni þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum í gær. Vörukarfan var ódýrust í Bónus þar sem hún kostaði  12.421 krónur en dýrust í Nettó, 13.422 krónur. Lítill munur var á verði körfunnar í Kaskó, Krónunni og Nettó.

Í vörukörfunni voru 36 almennar neysluvörur til heimilisins, svo sem mjólkurvörur, ostur, brauð, morgunkorn, ávextir, grænmeti, álegg, kjöt, drykkjarvörur, pakkavörur og dósamatur.

ASÍ segir, að við útreikning á verði vörukörfunnar sé tekið mið af því hvar neytandinn fær mesta magn af ákveðinni matvöru fyrir sem lægst verð. Vörurnar í körfunni séu flestar frá þekktum vörumerkjum sem þó geti verið seldar í mismunandi pakkastærðum eftir verslunum. Sé þá tekið mið af lægsta mælieiningaverði vörunnar í hverri verslun.

Mikill verðmunur var á grænmeti og ávöxtum í könnuninni eða allt frá  100,5% á gulrótum, sem voru ódýrastar í Nettó eða 199 kg hvert kíló, en  dýrastar í Krónunni, 399 krónur. Í Bónus kostaði kínakál 198 kr. kílóið og var það 76,3% ódýrara en í Nettó þar sem kílóið kostaði 349 krónur.

ASÍ segir að það veki athygli, að af 36 vörutegundum, sem eru í vörukörfunni hafi verið 1 krónu verðmunur á milli Bónus og Krónunnar í 11 tilvikum og sama verð í báðum verslunum í 5 tilvikum.

Verð á einstökum vörum í könnun ASÍ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka