Kosningalögum verður breytt með þeim hætti, að opnað verður á möguleika þess að taka upp persónukjör í kosningum til Alþingis, helst þannig að þær komist til framkvæmda í kosningum í vor. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, þegar hún flutt Alþingi í kvöld skýrslu um stefnu ríkisstjórnarinnar.
Jóhanna sagði, að gerðar verði breytingar á stjórnarskránni, sem kveði á um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum, þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnlagaþing. Þá verði hafinn undirbúningur að gerð siðareglna í Stjórnarráðinu, lagaákvæða um ráðherraábyrgð þannig að þau verði sambærileg og meðal nágrannaþjóða, og nýrra reglna um skipan hæstaréttar- og héraðsdómara.
Sagði Jóhanna að þessar
breytingar stuðli að því að efla lýðræðið og aðkomu almennings og afnema mismunun, sem hafi verið gagnrýnd.
„Ákall fólks um
breytingar hefur haft áhrif og mun ríkisstjórnin kappkosta að finna þessum
röddum og þeim kröfum sem komið hefur verið á framfæri farveg í verkum sínum og
vinnubrögðum," sagði Jóhanna.