Frumvarp forsætisráðherra um breytingar á stjórnskipulagi Seðlabanka Íslands er komið fram. Í athugasemdum með frumvarpinu segir m.a. að breytingar hafi það að markmiði „að tryggja að í bankanum sé starfandi fagleg yfirstjórn og þar með tryggt að faglega sé staðið að ákvarðanatöku við beitingu stjórntækja bankans í peningamálum.“
Í frumvarpinu er m.a. lagt til að forsætisráðherra skipi seðlabankastjóra til sjö ára í senn að undangenginni auglýsingu. „Seðlabankastjóri skal hafa lokið meistaraprófi í hagfræði og búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á peningamálum. Aðeins er heimilt að skipa sama mann seðlabankastjóra tvisvar sinnum. Seðlabankastjóri ber ábyrgð á rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru falin öðrum með lögum þessum.“
Við gildistöku laganna verður bankastjórn Seðlabanka Íslands lögð niður og þar með embætti þriggja bankastjóra. Nýtt embætti seðlabankastjóra skal auglýsa svo fljótt sem auðið verður.
Einnig er kveðið á um að peningastefnunefnd taki ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum. „Í peningastefnunefnd situr seðlabankastjóri, tveir af yfirmönnum bankans á sviði mótunar og framkvæmdar stefnu í peningamálum og tveir sérfræðingar á sviði peningamála sem seðlabankastjóri skipar til þriggja ára í senn að fenginni staðfestingu forsætisráðherra. Seðlabankastjóri er jafnframt formaður peningastefnunefndar.“