Sigtryggur Magnason, rithöfundur, hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur, menntamálaráðherra. Hrannar Björn Arnarsson fylgdi Jóhönnu Sigurðardóttur yfir í forsætisráðuneytið og mun því aðstoða Jóhönnu áfram.
Einar Karl Haraldsson er áfram aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar í iðnaðarráðuneytinu en Kristján Guy Burgess mun aðstoða Össur í utanríkisráðuneytinu.
Róbert Marshall er áfram aðstoðarmaður Kristjáns Möllers í samgönguráðuneytinu en ekki kemur fram á vef landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins hver taki við starfi aðstoðarmanns. Í raun er Einar Kr. Guðfinnsson enn titlaður ráðherra á vef ráðuneytisins og Björn Friðrik Brynjólfsson aðstoðarmaður ráðherra.
Ekki hefur heldur verið greint frá því á vef fjármálaráðuneytisins hver aðstoði Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra en hann er einnig ráðherra landbúnaðar- og sjávarútvegsmála. Enginn er skráður aðstoðarmaður Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra né Rögnu Árnadóttur dóms- og kirkjumálaráðherra. Hvorki Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og atvinnumálaráðherra eru skráðar með aðstoðarmenn, samkvæmt vef stjórnarráðsins.