Steingrímur ræddi við IMF í dag

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, skýrði frá því á Alþingi í kvöld að hann hefði átt ágætt samtal við þann yfirmann Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem fer með málefni Íslands. 

„Það fór hið besta á með okkur og hann taldi það sjálfsagt mál að við ræddum framgang þessarar áætlunar og hvernig hana mætti sem best aðlaga að aðstæðum á Íslandi í dag. Það kemur í ljós að það má bara tala við þessa menn... Ég held að Sjálfstæðisflokknum hljóti að vera létt," sagði Steingrímur.

Steingrímur sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, að engin ríkisstjórn í sögu íslenska lýðveldisins Íslandi hefði tekið við öðru eins þrotabúi og stjórnin, sem tók við völdum um helgina. Þá hefði engin stjórn þurft að horfast í augu við jafn dökkar framtíðarhorfur.

Hann sagði, að það kæmi m.a. í sinn hlut að ljúka endurreisn fjármálakerfisins og koma á starfhæfum bönkum.  Því miður væri staðan þannig í hinu hefðbundna atvinnulífi, sem þó væri starfandi í landi, væru miklir uppsafnaðir og nýir erfiðleikar en þar lægju engu að síður þau tækifæri og möguleikar sem yrði að virkja.

„Við erum vinnusöm og velmenntuð þjóð, við erum heiðarlegt og gott fólk. Við erum friðsöm, við viljum lýðræðislegt, réttlátt og opið samfélag.  Og nú verðum við að taka á saman," sagði Steingrímur. Sagðist hann taka undir áskorun forsætisráðherra til forsvarsmanna fyrirtækja að þeir geri allt sem í þeirra valdi standi til að halda fólki í störfum „og þreyja með okkur þorrann og góuna þannig að við komumst öll á græn grös."  
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert